Hoppa yfir valmynd

Mikil fjölgun tilkynninga vegna truflana á fjarskiptum

Tungumál EN
Heim

Mikil fjölgun tilkynninga vegna truflana á fjarskiptum

19. febrúar 2016

Truflunum í almennum fjarskiptakerfum á Íslandi hefur fjölgað mjög á síðastliðnum árum. Þetta getur valdið alvarlegum vandkvæðum og jafnvel ógnað öryggi manna, því öll þráðlaus fjarskipti, t.d. farsímanotkun og útvarps- og sjónvarpssendingar eru háð því að ekki séu truflanir á þeim tíðnum sem eru notuð í samskiptin. Það er því mikilvægt að fyrirbyggja slíkar truflanir eins og kostur er og slíkt byggist á vitund bæði almennings og fjarskiptafyrirtækja um hugsanlegar orsakir og afleiðingar.

Tilkynna má truflanir í fjarskiptum til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), en samkvæmt fjarskiptalögum skal stofnunin stuðla að því að halda skaðlegum fjarskiptatruflunum í lágmarki. Hefur hún yfir að ráða sérhæfðum mælabúnaði til að mæla og staðsetja fjarskiptatruflanir ásamt sérfræðingum sem túlka niðurstöður mælinga.
Þegar tilkynning um truflun berst er leitast við að finna orsakir hennar eins fljótt og verða má og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bætt verði úr.

Sú fjölgun sem hefur orðið á tilkynntum truflunum á síðustu þremur árum er áhyggjuefni, en aukningin er meira en 100% eins og sést í töflunni hér fyrir neðan:

Ár   2013     2014 2015
 Fjöldi truflana  30  53  82

Truflanir í fjarskiptakerfum geta t.d. komið fram sem lélegt eða ekkert símasamband, truflanir á hljóði, eða óskýr sjónvarpsmynd.

Orsakir truflana geta verið nokkrar, en þessar eru helstar:

  1. Aukinn innflutningur almennings á tækjum sem keypt eru erlendis frá á netinu og uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til fjarskiptabúnaðar hér á landi og í raun á öllu EES-svæðinu. Slík tæki passa ekki inn í það tíðniskipulag sem notað er hérlendis og geta því valdið truflunum. Framleiðendur fjarskiptabúnaðar sem ætlaður er fyrir EES-svæðið bera ábyrgð á því að búnaðurinn uppfylli þær kröfur sem hér gilda og skulu merkja búnaðinn með CE-merkinu því til staðfestingar. Tækin sem um ræðir geta verið t.d. DECT símar frá Bandaríkjunum, farsímaendurvarpar og annar notendabúnaður sem ekki er viðurkenndur fyrir notkun í Evrópu. Ólöglegt er að flytja slík fjarskiptatæki inn. Tollayfirvöld stöðva fjölda slíkra sendinga til landsins á hverju ári og t.d. féll dómur í máli af þessu tagi í nóvember sl. þar sem einstaklingur var dæmdur til sektargreiðslu.

  2. Óæskileg áhrif frá nálægum sendi eða sendum á annan sendi, t.d. blandanir frá 2 sendum á þriðja sendinn, loftnet of nálægt hvoru öðru, yfirfylling á móttöku sendis o.fl.

  3. Bilun í tækjabúnaði, t.d. bilun í sendi eða í köplum

  4. Röng eða ólögleg notkun á tíðnum, t.d. þegar ekki er til staðar þekking á tíðnibandinu, sendar rangt stilltir, o.fl.

  5. Aukið álag á tíðnisviðum sem eru í notkun, t.d. á háhraðatíðnisviðum (4G/LTE). Þetta kemur til af mikilli fjölgun tækja sem eru í notkun á hverjum tíma og um leið gríðarlegri aukningu á gagnamagni sem fer um sviðin.

Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig truflanir dreifðust eftir því hvar þær komu fram árið 2015:

Skífurit yfir truflanir 2015. Farsímakerfi 46%, fastasambönd 5%, sjónvarp 5%, WiMax 1%, truflanir hverfa 5%, EMC 3%, gervihnettir 1%, fastanet 2%, talstöðvarásir 12%, hljóðvarp 13%, leiðsögukerfi eða samskipti flugvéla 3%, Wifi 4%

Eins hér sést voru flestar tilkynningar um truflanir á farsímakerfum eða 46%, næstflestar voru tilkynningar um truflanir á FM útvarpssendingum (13%) og á talstöðvarásum (12%).

Samanlagt eru þessir þrír flokkar (farsímakerfi, hljóðvarp og talstöðvarásir) með um 70% af tilkynntum truflunum til PFS. Þegar litið er til framtíðar er ljóst að Ísland, eins og önnur lönd í kring um okkur, mun á næstu árum innleiða nýjar tegundir þjónustu sem byggja á áframhaldandi þróun 4G tækninnar (fjórðu kynslóðar farsímakerfa) og í náinni framtíð uppbyggingu 5G farnetskerfa. Þar er um að ræða mikla tæknibyltingu þar sem innleiddar verða nýjar tegundir þjónustu sem kallaðar eru tæki í tæki, TíT (e. M2M, Machine to Machine) og internet hlutanna, IH (e. IoT, Internet of Things).

Þessi tækni gerir mögulegt að samtengja og samþætta tengingu tækja og hluta yfir internetið þar sem tækin geta miðlað og greint gögn sem hægt er að nýta á ýmsa hagnýta vegu, m.a. í þágu umferðaröryggis, aukinnar hagræðingar í orkunýtingu og síðast en ekki síst í heilsugæslu.

Spár gera ráð fyrir að á bilinu 38 til 50 milljarðar nettengdra tækja verði í notkun í heiminum árið 2020. Þar má nefna þjónustu eins og sjálfkeyrandi bíla sem tala saman og gæta þannig fjarlægðar á milli bíla, hafa árekstrarvörn og hafa samband við innviði umferðarstjórnunar sem stýrir umferðarljósum o.fl. Einnig má nefna hagkvæma stýringu á orkuneyslu heimila, borga og bæja, fjölbreyttar öryggisstýringar sem koma fyrirtækjum og almennum borgurum til góða og síðast en ekki síst þá miklu byltingu sem verður á sviði heilsugæslu og umönnunar sjúklinga þar sem nettengdir skynjarar, sem t.d. fylgjast með lífsmerkjum sjúklinga eða aldraðra, geta látið lækna vita í tíma þannig að rétt sé brugðist við varðandi lyfjagjöf eða vitjanir um sjúklinga.

Truflanalaus fjarskipti eru undirstaða þess að þessi framtíðarsýn geti orðið að veruleika. Til þess að tryggja þau þarf aðkomu margra aðila. Póst- og fjarskiptastofnun þarf að gera það sem í hennar valdi stendur með fyrirbyggjandi aðgerðum og truflanaleit. Því er mikilvægt að stofnuninni verði gert kleift að gera slíkt með nauðsynlegri reglusetningu, þjálfuðum mannskap og sérhæfðum búnaði til að standa að eftirlitinu. Aðrir sem þurfa einnig að koma að málum eru t.d. fjarskiptafélögin sem þurfa að tryggja heildstæði neta sinna, en það felur í sér að tenging sé ávallt til staðar og af þeim gæðum sem nauðsynleg eru. Þá er ekki síður mikilvægt að almenningur og fyrirtæki gæti þess að eingöngu séu notuð fjarskiptatæki sem eru lögleg til notkunar á Íslandi. Reynsla síðustu ára sýnir að notkun ólöglegs búnaðar veldur miklum truflunum og slíkt getur reynst afdrifaríkt þegar truflanir geta jafnvel haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu manna.

 

 

 

 

 

 

Til baka