Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun á reglum um innanhússfjarskiptalagnir

17. nóvember 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur unnið að endurskoðun á reglum nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir með hliðsjón af þeirri tækniþróun sem átt hefur sér stað á fjarskiptamarkaðnum. Er hér átt við hina auknu ljósleiðaravæðingu landsins, en koparheimtaugar voru ráðandi á markaðinum þegar reglurnar voru settar árið 2006. Við endurskoðunina hefur stofnunin því yfirfarið öll ákvæði reglnanna með framangreint í huga. Var hagsmunaaðilum á markaði gefinn kostur á því að koma með athugasemdir og tillögur að breytingum vegna endurskoðunarinnar á meðan á henni stóð.

Helstu breytingar sem gerðar verða á reglugerðinni eru eftirfarandi:

  • Mælt er fyrir um frávíkjanleika frá reglunum með samþykki húseiganda með undantekningum
  • Breytingar hafa verið gerðar á orðskýringum. Þar má m.a. sjá nýtt hugtak - splæsitenging, auk þess sem hugtakið húskassi hefur minna vægi og meira lagt í hugtakið inntak, og er það gegnum gangandi í reglunum.
  • Helstu breytingar varða 7. gr. reglnanna. Þar er nú kveðið á um heimild um að splæsitengja strengenda heimtaugar við innanhússlögn í inntaki, ef þrír þræðir innanhússlagnar liggja frá inntaki inn í hverja íbúð, að fengnu samþykki húseiganda
  • Búið að fjarlægja skyldu um innsigli
  • Þá hafa ákvæði verið felld út sbr. 11. gr. um vinnuseðla og 12. gr. um upplýsingaskyldu húseiganda
  • Nýtt ákvæði um eftirlit og úttektir af hálfu PFS sbr. 13. gr.
  • Nýtt ákvæði um upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til PFS sbr. 14. gr.

PFS kallar hér með eftir frekara samráði við hagsmunaaðila um þær breytingar sem stofnunin hyggst gera á framangreindum reglum.  Tvö skjöl með drögum að nýjum reglum er að finna hér fyrir neðan. Annars vegar er um að ræða Word skjal sem sýnir allar breytingar sem fyrirhugaðar eru. Hins  vegar er pdf. skjal sem sem sýnir hvernig reglurnar munu koma til með að líta út samkvæmt þeim breytingum sem PFS leggur hér fram til samráðs.

Athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar skulu vísa með skýrum hætti til þeirra ákvæða regludraganna sem þær eiga við.  Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 1. desember 2015.

Sjá samráðsskjölin hér fyrir neðan:

Drög að breyttum reglum um innanhússfjarskiptalagnir (Word skjal með sýnilegum fyrirhuguðum breytingum)

Drög að breyttum reglum um innanhússfjarskiptalagnir (PDF skjal með fyrirhuguðum breytingum)

 

Til baka