Hoppa yfir valmynd

Úrbætur á frágangi lagna í húskassa ekki á ábyrgð Gagnaveitu Reykjavíkur

Tungumál EN
Heim

Úrbætur á frágangi lagna í húskassa ekki á ábyrgð Gagnaveitu Reykjavíkur

13. nóvember 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur með ákvörðun sinni nr. 29/2015 leyst úr ágreiningi um kröfu Mílu um að Gagnaveita Reykjavíkur (GR) framkvæmi úrbætur á frágangi strengenda heimtaugar, þar sem hún tengist innanhússlögn í húskassa, í tilteknum húseignum á höfuðborgarsvæðinu.

Í lok síðasta árs komst PFS að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni nr. 32/2014, að óheimilt væri að bræðisjóða strengenda ljósleiðaraheimtaugar við innanhússlögn, heldur bæri að koma strengenda fyrir í tengilista sem innanhússlögn tengdist með tengisnúru. Enn fremur að Gagnveita Reykjavíkur skyldi framkvæma úrbætur á tengingum sem þegar hefðu verið settar upp, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Ákvörðun PFS var staðfest í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2014 að því undanskildu að fyrirmæli PFS um úrbætur voru felld úr gildi. Var það annars vegar álit úrskurðarnendar að fyrirmælin hafi ekki verið í samræmi við 14. gr. reglna PFS nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir, sem fjallar um viðurlög við brotum á reglunum, og hins vegar að þau gætu ekki átt sér stoð í 73. gr. fjarskiptalaga, þar sem kröfur til beitingu viðurlagaákvæða væru ekki uppfylltar.

Í kjölfar úrskurðarins, sem staðfesti að frágangur á strengenda heimtaugar GR í húskassa bryti gegn áðurnefndri reglu PFS nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir, ítrekaði Míla kröfu sína um að GR færði fráganginn til samræmis við lög.

Við meðferð málsins endurtók PFS rannsókn málsins frá grunni, m.a. með því að yfirfara lagagrundvöll þess með tilliti til fram kominna sjónarmiða málsaðila. Fyrir liggur að frágangur GR á strengendum ljósleiðaraheimtauga í húskössum brýtur gegn 7. gr. reglna PFS nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir. Varðandi kröfu um úrbætur þyrfti á hinn bóginn að horfa til þess að innanhússlagnir frá samtengipunkti í húskassa eru á ábyrgð húseiganda, samkvæmt 60. gr. fjarskiptalaga og 4. gr. reglna PFS nr. 1109/2006 um innanhússfjarskiptalagnir. Í ljósi ábyrgðar húseiganda er það niðurstaða PFS að Míla geti ekki beint kröfu um úrbætur að GR. Er áðurnefndri kröfu Mílu því hafnað.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 29/2015 - Krafa um úrbætur á frágangi tenginga í húskassa

 

Til baka