Hoppa yfir valmynd

Fimm fyrirtæki útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

Tungumál EN
Heim

Fimm fyrirtæki útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

31. júlí 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 20/2015 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7).

Með ákvörðuninni eru Síminn hf., Fjarskipti ehf. (Vodafone), Nova ehf., IMC Ísland (Alterna) og 365 miðlar ehf. útnefnd sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði fyrir lúkningu símtala í GSM/2G, UMTS/3G, LTE/4G og lagðar eru viðeigandi kvaðir á þau. Þessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 3/2012. Kvaðir á fyrirtækin verða að mestu áfram þær sömu og áður að því undanskildu að kvöð um bókhaldslegan aðskilnað er afnumin af Símanum og Vodafone þar sem slíkt er óþarft ef byggt er á verðsamanburði.

PFS beitir áfram verðsamanburði við ríki innan EES-svæðisins til að ákvarða hámarks lúkningarverð íslenskra farsímafyrirtækja eins og gert hefur verið síðustu ár. Nánari lýsingu á þeim viðmiðum sem fylgt er við verðsamanburðinn má finna í ákvörðunarskjalinu sjálfu hér fyrir neðan.

Núverandi lúkningarverð er 1,52 kr./mín. og gildir það verð til loka 2015. PFS er nú að leggja lokahönd á verðsamanburð til að ákvarða lúkningarverð fyrir árið 2016. Fyrirhugað er að birta niðurstöðu úr þeim verðsamanburði til samráðs við hagsmunaaðila hér á landi í ágúst. Lúkningarverð á EES-svæðinu hafa farið lækkandi undanfarin misseri og með notkun verðsamanburðar við ákvörðun lúkningarverðs hafa lúkningarverð hér á landi fylgt þeirri þróun.

Vegna kvaðar um eftirlit með verðskrá eru þau nýmæli að sérstaklega er tekið fram í ákvörðuninni að hámarkslúkningarverð gildi einungis um símtöl sem eiga uppruna sinn í netum fjarskiptafyrirtækja sem starfrækt eru innan EES svæðisins. Kvöð um hámarksverð gildir því ekki um símtöl sem eiga uppruna í netum utan EES svæðisins.

Á tímabilinu 1. apríl til 18. maí sl. fór fram innanlandssamráð um greiningu PFS á markaði 7. Athugasemdir bárust frá 365 miðlum ehf. og Símanum hf. Samantekt þeirra athugasemda sem bárust ásamt afstöðu PFS má finna í viðauka II við ákvörðunina hér fyrir neðan.

Drög að ákvörðun á viðkomandi markaði voru send þann 23. júní sl. til ESA og annarra fjarskiptaeftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2009 um Póst- og fjarskiptastofnun. Þessir aðilar gerðu ekki athugasemdir við ákvörðunardrögin og því getur PFS tekið formlega ákvörðun í málinu í samræmi við ákvörðunardrögin.

Sjá ákvörðunina sjálfa ásamt fylgiskjölum:

Ákvörðun PFS nr. 20/2015 – útnefning fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaði 7)

 

 

Til baka