Hoppa yfir valmynd

Símanúmerið 118 lokað frá og með 1. júlí. Þrír aðilar með upplýsingar um símanúmer

Tungumál EN
Heim

Símanúmerið 118 lokað frá og með 1. júlí. Þrír aðilar með upplýsingar um símanúmer

2. júlí 2015

Frá miðnætti 30. júní s.l. hefur ekki verið hægt að fá upplýsingar um símanúmer í stuttnúmerinu 118.  Þrír aðilar veita þessa þjónustu frá og með 1. júlí. Þetta eru fyrirtækin Halló ehf. í símanúmerinu 1800, Já í símanúmerinu 1818 og Nýr valkostur ehf. í símanúmerinu 1819.

Á sama tíma mun Póst- og fjarskiptastofnun yfirtaka númerið 118 frá Já upplýsingaveitum hf. sem veitt hefur þessa þjónustu í númerinu um árabil.

Með ákvörðun PFS nr. 31/2013 var aflétt alþjónustukvöðum af Já upplýsingaveitum hf. og kveðið á um afturköllun leyfis til notkunar á símanúmerinu 118 frá og með framangreindri dagsetningu.

Þessi aðgerð stofnunarinnar er liður í umfangsmeira verkefni hennar við að skapa forsendur fyrir jafnari samkeppni á markaði fyrir upplýsingaþjónustuveitur með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Hefur þessi vinna m.a. leitt til þess að nú eru, eins og áður segir, þrír aðilar á markaði sem veita upplýsingar um símanúmer, þ.e. Halló ehf. í símanúmerinu 1800, Já í símanúmerinu 1818 og Nýr valkostur ehf. í símanúmerinu 1819.

Í byrjun júlí munu svo taka gildi endurnýjaðar reglur um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta, sem taka mið af framangreindum breytingum.

 

Til baka