Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á stofnleigulínumarkaði

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um markaðsgreiningu á stofnleigulínumarkaði

1. júlí 2015

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Um er að ræða þann hluta leigulína sem liggur á milli símstöðva/tengipunkta. PFS hafði áður greint heildsölumarkað fyrir lúkningarhluta leigulína, þ.e. þann hluta leigulína sem liggur frá endanotanda til símstöðvar/tengipunkts, sbr. ákvörðun PFS nr. 8/2014.

Umræddar stofnleigulínur eru mikilvæg aðföng í rekstri fjarskiptafyrirtækja til að tengja saman fjarskiptakerfi þeirra bæði innanbæjar og á milli landshluta. Slíkar leigulínur, sem oftast eru ljósleiðarar en einnig örbylgjusambönd á afskekktustu stöðum, eru m.a. notaðar til að tengja farsímasenda farsímafyrirtækja.

Umræddur markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 20/2007 og þá var það niðurstaðan að bæði Míla og Síminn voru útnefnd sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og voru viðeigandi kvaðir lagðar á bæði félögin.

Fyrirhuguð niðurstaða nú er að Míla eitt fyrirtækja skuli útnefnt með umtalsverðan markaðsstyrk þar sem Síminn starfar ekki lengur á viðkomandi markaði eftir sátt á milli Símasamstæðunnar og Samkeppniseftirlitsins frá 2013. Áformað er að viðhalda kvöðum á félagið til að stuðla að virkri samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskipta sem treysta á aðgang að hinu landsdekkandi stofnleigulínukerfi Mílu í starfsemi sinni.

Megin breytingin frá fyrri ákvörðun er að PFS áformar nú að skilgreina hinn landfræðilega markað sem landið allt, en í síðustu greiningu var hinum landfræðilega markaði skipt í tvennt, þ.e. höfuðborgarsvæðið annars vegar og landsbyggðin hins vegar. PFS telur ekki rök fyrir því að viðhalda slíkri skiptingu.

Í tilmælum ESA frá 2008 er viðkomandi markaður ekki lengur einn þeirra markaða sem taldir eru upp um markaði sem greina þarf sérstaklega. Því þurfti PFS að framkvæma svokallað þriggja skilyrða próf (e. Three Criteria Test). PFS taldi að öll hin þrjú skilyrði væru uppfyllt varðandi umræddan markað hér á landi, þ.e. að verulegar aðgangshindranir væru til staðar, markaðurinn væri ekki að þróast nægilega í átt til virkrar samkeppni og að almenn samkeppnislög myndu ekki duga til að leysa þau samkeppnisvandamál sem til staðar væru á umræddum markaði.

Á tímabilinu 23. desember til 24. febrúar sl. fór fram innanlandssamráð um drög að markaðsgreiningunni. Athugasemdir bárust frá Samkeppniseftirlitinu, Mílu ehf. og Fjarskiptum ehf. (Vodafone).

Ákvörðunardrögin eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Eftirfarandi drög að ákvörðun PFS voru send ESA:

Á íslensku

Á ensku

 

 

 

Til baka