Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um endurskoðun á gjaldskrám Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um endurskoðun á gjaldskrám Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína

1. júlí 2015

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun varðandi tvær gjaldskrár Mílu á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Annars vegar var um að ræða endurskoðun á leigulínugjaldskrá Mílu og hins vegar gjaldskrá Mílu fyrir hraðbrautarsambönd.

Fyrirhuguð niðurstaða PFS er að heimila Mílu að lækka mánaðarverð á leigulínum í samræmi við niðurstöðu úr kostnaðargreiningu fyrirtækisins. Mesta lækkunin er á stærri samböndum. Lækkunin skýrist að mestu leyti af tækniþróun og lækkun kostnaðar. Þá hefur Míla einnig aukið fjölda gagnaflutningshraða sem í boði eru. Eins og áður þá skiptist gjaldskráin í mánaðargjöld (línugjald og km-gjald) og stofngjöld. Lagt er til að stofngjöldin séu samræmd (um 96 þús. kr.) fyrir alla gagnaflutningshraða í samræmi við endurskoðað mat á kostnaði vegna uppsetninga á samböndum. Við það hækka stofngjöldin á sumum samböndum meðan önnur haldast óbreytt.

Þá hyggst PFS samþykkja breytingu á gjaldskrá Mílu fyrir hraðbrautarsambönd sem felst í því að leigugjald fyrir 10 Gb/s sambönd hækkar úr 120 þús. kr. í 160 þús. kr. á mánuði. Leigugjald fyrir 1 Gb/s helst óbreytt 95 þús. kr. á mánuði. Mánaðarverð hraðbrautarsambanda eru föst og óháð vegalengdum en þau hafa verið í boði hjá Mílu á stöðum innan Höfuðborgarsvæðisins og á Suðurnesjum. Stofngjald fyrir hraðbrautarsamband helst óbreytt 107 þús. kr. á tengingu.

Á tímabilinu 23. desember til 10. febrúar sl. fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á gjaldskrám Mílu. Engar athugasemdir bárust vegna gjaldskrár Mílu fyrir leigulínur en athugasemdir bárust frá Fjarskiptum hf. (Vodafone) vegna gjaldskrá Mílu fyrir hraðbrautarsambönd og eru þær tilgreindar í ákvörðunardrögunum, ásamt svari Mílu og afstöðu PFS.

Ákvörðunardrögin eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Eftirfarandi drög að ákvörðun PFS voru send ESA:

Á íslensku

Á ensku

 

Til baka