Hoppa yfir valmynd

Samráð við ESA um heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum

Tungumál EN
Heim

Samráð við ESA um heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum

15. júní 2015

Í dag sendi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) drög að ákvörðun varðandi heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2 og 3) til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.

Samkvæmt ákvörðunardrögunum skal heildsölugjald fyrir upphaf símtala í föstu talsímaneti Símans vera að hámarki 0,56 kr./mín. Þá skal heildsölugjald fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum vera 0,16 kr./mín. og skal það verð gilda sem hámarksverð hjá Símanum, Vodafone, Nova, Símafélaginu og Hringdu. Núverandi tengigjald er fellt brott þegar hin nýju verð taka gildi. Nánari lýsingu á þeim viðmiðum sem fylgt var við verðsamanburðinn má finna í ákvörðunardrögunum hér að neðan.

Áformað er að heildsölugjaldskráin samkvæmt ákvörðunardrögunum taki gildi frá og með 1. janúar 2016.

Á tímabilinu 31. mars til 5. maí sl. fór fram innanlandssamráð um umræddar breytingar á gjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum. Athugasemdir bárust frá 365 miðlum ehf. og Símanum hf. Samantekt þeirra athugasemda sem bárust ásamt afstöðu PFS má finna í viðauka II hér fyrir neðan.

Ákvörðunardrögin eru nú send til ESA og annarra eftirlitsstofnana á EES-svæðinu til samráðs í dag með vísan til 7. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun og 7. gr. rammatilskipunar ESB nr. 2002/21/EB. Umræddir aðilar hafa einn mánuð til að setja fram athugasemdir við ákvörðunardrögin. Eftir það getur PFS formlega tekið ákvörðun nema fram komi óskir frá ESA um að PFS dragi ákvörðunardrögin til baka. Ekki er gert ráð fyrir því að innlendir hagsmunaaðilar geri athugasemdir við ákvörðunardrögin að þessu sinni.

Eftirfarandi drög að ákvörðun PFS voru send ESA (PDF skjöl):

Á íslensku

Á ensku

 

 

Til baka