Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli Mílu vegna ljósleiðaralagningar GR í Ölfusi

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS í kvörtunarmáli Mílu vegna ljósleiðaralagningar GR í Ölfusi

10. júní 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) birtir nú ákvörðun sína nr. 11/2015 vegna kvörtunar Mílu um ljósleiðaralagningu Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) í Ölfusi.
Efni kvörtunar Mílu var tvíþætt. Taldi félagið annars vegar að GR hefði brotið gegn 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga með því að kveða á um bindingu til 24 mánaða í svonefndri skuldbindandi yfirlýsingu félagsins til íbúa sveitarfélagsins. Hins vegar taldi Míla að fyrirkomulag fjármögnunar sveitarfélagsins til GR, sem rekja mætti til uppgræðslusjóðs Ölfuss, sem stofnaður var af Orkuveitu Reykjavíkur (OR) árið 2006 í tengslum við framkvæmdir á Hellisheiðavirkjun, bryti í bága við 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga, um aðskilnað sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi.
Í ákvörðuninni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að því er varðar 2. mgr. 37. gr. laganna að orðalag skuldbindandi yfirlýsingar GR feli ótvírætt í sér skuldbindingu af hálfu notenda um að kaupa þjónustu um ljósleiðarann í að lágmarki 24 mánuði. Að mati PFS felur slíkt í sér hindrun gagnvart notendum varðandi það að kaupa tengingu af samkeppnisaðilum GR. PFS bendir á að þrátt fyrir að komið hefði fram af hálfu GR að yfirlýsingin hefði e.t.v. ekki verið eins skýr og best yrði á kosið m.t.t. þess að um skuldbindingu á kostnaðarþátttöku hafi verið að ræða þá geti eftirá skýringar GR m.a. um óskýrleika ekki komið til skoðunar í þessum efnum. Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna sé ótvírætt og óundanþægt og því yrði GR að bera hallan af slíkum annmarka.
Hvað varðar seinna umkvörtunarefni Mílu þá telur PFS að þátttaka OR og GR í fjármögnun ljósleiðarauppbyggingar á vegum sveitarfélagsins Ölfuss (SÖ) hafi brotið gegn 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga, um aðskilnað sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptastarfsemi.Tiltekur stofnunin að horfa verði til þess að um hafi verið að ræða fjármagn úr uppgræðslusjóði Ölfuss sem stofnaður var með samningi milli OR og SÖ vegna virkjanaframkvæmda hins fyrrnefnda á Hellisheiði. OR hafi átt fulltrúa innan sjóðsins frá upphafi og þar til sjóðurinn var lagður niður. Telur PFS óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að OR hafi tekið beinan þátt í þeirri afgreiðslu að ráðstafa öllum höfuðstóli sjóðsins til uppbyggingar á ljósleiðaranetinu. Þá hafi GR jafnframt tekið þátt í þeirri ráðstöfun með því að undirrita samning við SÖ um ljósleiðaralagningu í sveitarfélaginu sem byggði á fyrrgreindri fjármögnun.
Horfa verður til inntaks 1. mgr. 36. gr. laganna en þar er kveðið á um skyldu til fjárhagslega aðskilnaðar, hvort sem fjarskiptareksturinn fer fram innan hins verndaða fyrirtækis eða í fyrirtæki sem hið verndaða fyrirtæki hefur yfirráð yfir. Með öðrum orðum þá gildir ákvæðið m.a. um samskipti innan fyrirtækjasamstæðu sem að hluta stundar fjarskiptastarfsemi og gildir án tillits til markaðsstyrks fyrirtækis sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Bendir PFS á að óumdeilt sé að GR, eitt af dótturfélögum OR, reki fjarskiptanet og veitti fjarskiptaþjónustu, en OR er fyrirtækjasamstæða sem nýtur sérréttinda í skilningi 36. gr. laganna. Öll dótturfélög OR, hvort sem er innan eða utan einkaréttar, njóti góðs af því að vera innan samstæðu OR sem er í opinberri eigu, en í krafti eignarhaldsins og stærðar samstæðunnar gefist kostur á hagstæðari kjörum sem öll félögin njóti sameiginlega góðs af. Einmitt af þessum sökum gera fjarskiptalög ráð fyrir því að fjarskiptastarfsemi sé fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi veitufyrirtækja sem starfa á grundvelli sérleyfis.
Þá fellst PFS ekki á sjónarmið OR og GR um að Hellisheiðarvirkjun falli innan samkeppnishluta samstæðunnar í ljósi þess að virkjunin sé blönduð jarðvarmavirkjun sem framleiðir bæði heitt vatn og raforku, en skv. 30. gr. orkulaga nýtur fyrirtækið einkaréttar til dreifingar og sölu á heitu vatni á markaðssvæði sínu.
Telur PFS ljóst að þegar horft er til framangreinds, uppruna fjármagns frá OR til SÖ, skipun stjórnar sjóðsins, ráðstöfun fjárins úr sjóðnum til GR og loks samnings SÖ og GR þar sem kveðið væri á um eignaraðild GR að ljósleiðaranetinu, að fyrirkomulagið gæti hvorki talist í samræmi við meginmarkmið fjarskiptalaga um að tryggja jafna samkeppnisstöðu markaðsaðila eða inntak 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga um að koma í veg fyrir að samkeppnisstarfsemi sé niðurgreidd af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi einkaleyfis.
PFS vill þó til taka það fram að GR hefur upplýst stofnunina um að félagið hyggist una þeirri ákvörðun sem nú er birt og nú þegar hafi verið gripið til ráðstafana í því skyni að starfa í samræmi við ákvörðunarorðin að því er varðar 2. mgr. 37. gr. fjarskiptalaga um binditíma áskrifenda og eignarhalds sbr. 1. mgr. 36. gr. fjarskiptalaga.

Sjá nánar í ákvörðuninni sjálfri og viðauka:

Ákvörðun PFS nr. 11/2015 vegna kvörtunar Mílu um ljósleiðaralagningu Gagnaveitu Reykjavíkur í Ölfusi

Viðauki

 

 

Til baka