Hoppa yfir valmynd

Íslandspóstur fær heimild til að loka póstafgreiðslu á Tálknafirði

Tungumál EN
Heim

Íslandspóstur fær heimild til að loka póstafgreiðslu á Tálknafirði

28. apríl 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur samþykkt beiðni Íslandspósts um heimild til að loka póstafgreiðslu á Tálknafirði. Í staðinn ætlar Íslandspóstur að nota póstbíl til að sinna þjónustu við íbúa svæðisins. Það er mat stofnunarinnar að sú þjónusta sem Íslandspóstur ætlar að veita í stað póstafgreiðslunnar fullnægi gæðakröfum laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sem og þeim skyldum sem hvíla á fyrirtækinu sem alþjónustuveitanda.

Ein meginskylda Íslandspósts er að afhenda bréf og böggla til skráðs viðtakanda sem og að móttaka bréf og böggla til póstmeðferðar frá viðskiptavinum sínum. Engin breyting er boðuð af hálfu Íslandspósts varðandi útburð póstsendinga á svæðinu.

Bréfberi/bílstjóri mun nú taka á móti póstsendingum frá íbúum og fyrirtækjum á Tálknafirði með sama hætti og hann hefur gert hjá íbúum utan þéttbýlis um áraraðir og nú í seinni tíð á minni þéttbýliskjörnum víðs vegar um landið, s.s. Eyrarbakka, Stokkseyri og Stöðvarfirði svo einhverjir staðir séu nefndir. Ekki verður annað séð en að eina hugsanlega óhagræðið sem í þessu felst sé að ekki er lengur afgreiðslustaður með fyrirfram skilgreindum opnunartíma. Á móti kemur að íbúar geta hringt í bréfbera/bílstjóra og pantað þjónustu innan ákveðins tímaramma eins og segir í skýringum með breytingunum.

Póstkassi verður á Tálknafirði og í hann verður áfram hægt að koma almennum bréfum til skila sem bera með sér að burðargjöld hafi verið greidd. En aðgangur að póstkassa er hluti af skilgreiningu á hugtakinu afgreiðslustaður samkvæmt lögum um póstþjónustu. Að mati PFS eru þær breytingar sem boðaðar eru á þjónustuháttum til þess fallnar að minnka þörfina fyrir að reka hefðbundinn afgreiðslustað á Tálknafirði.

Sjá nánar um forsendur og rökstuðning í ákvörðuninni sjálfri:

Ákvörðun PFS nr. 9/2015 um lokun póstafgreiðslu á Tálknafirði (póstnúmer 460)

 

Til baka