Hoppa yfir valmynd

Samráð um nýja tíðnistefnu fyrir háhraða farnetsþjónustu. M.a. breytingar á 700 MHz tíðnisviðinu.

Tungumál EN
Heim

Samráð um nýja tíðnistefnu fyrir háhraða farnetsþjónustu. M.a. breytingar á 700 MHz tíðnisviðinu.

22. apríl 2015

Póst- og fjarskiptastofnun hefur það hlutverk að annast skipulag tíðnirófsins þannig að hagnýting þess í þágu fjarskipta sé skilvirk, hagkvæm og truflanalaus.

Í takt við öra tækniþróun hefur skipulag tíðnirófsins verið í mikilli endurskoðun síðustu ár, bæði á alþjóða- og landsvísu. Árið 2011 birti PFS fyrst tíðnistefnu sína og náði hún til áranna 2010 – 2014.

Í samráðinu sem nú er kallað eftir er áhersla lögð á framtíðarnotkun tíðnisviða fyrir þráðlausa háhraðaþjónustu (t.d. 4G), en þar er vöxtur tækniþróunar mestur og uppbygging hröðust.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá hluta tíðnirófsins. Þau svæði sem um ræðir í samráðinu nú eru merkt með bláum lit.

Umræðuskjal um nýja tíðnistefnu 2015 – 2018
PFS birtir nú umræðuskjal um tíðnistefnu fyrir ákveðin tíðnisvið sem gilda skal frá 2015 til 2018 og kallar stofnunin eftir svörum og athugasemdum hagsmunaaðila varðandi skipulag tíðnirófsins. Kallað er eftir samráði um tíðnisviðin 450 MHz, 700 MHz, 900 MHz, 1450 MHz, 2.1 GHz, 2.3 GHz, 2.6 GHz og 3.4 – 3.8 GHz, en þessi tíðnisvið eru öll eyrnamerkt fyrir háhraðafarnetsþjónustu (t.d. 4G)

700 MHz tíðnisviðið – þráðlausir hljóðnemar á víkjandi heimildum
Sérstaklega er kallað eftir áliti hagsmunaaðila varðandi notkun 700 MHz tíðnirófsins sem er nú m.a. notað fyrir þráðlausa hljóðnema (PMSE), og var áður notað fyrir hliðrænar sjónvarpssendingar. Notkun þráðlausra hljóðnema á tíðnisviðinu er þó á svokölluðum víkjandi heimildum, þ.e. ef tíðnisviðið er notað fyrir aðra þjónustu ber þeim tækjum að víkja.
Bæði Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) og Fjarskiptaráð Evrópu (ECC) hafa ákveðið að 700 MHz tíðnisviðið (694-790 MHz) skuli notað fyrir háhraða aðgangs- og farnetsþjónustu (MFCN, Mobile/Fixed Communication Networks).  Skal sú ákvörðun taka gildi í nóvember í haust.
Ef samráðið nú leiðir í ljós að eftirspurn er eftir tíðnisviðinu fyrir háhraða aðgangs- og farnetsþjónustu (t.d. 4G) áformar PFS að úthluta tíðnisviðinu sem fyrst til notkunar í samræmi við ákvörðun ITU og ECC.

Stofnunin kallar því eftir því að þeir sem reka, eða hyggjast reka, aðra þjónustu sem nú er á víkjandi heimildum (PSME) og nýja þjónustu eins og fjarskipti neyðaraðila (PPDR) og tæki í tæki, TíT (M2M) setji fram skoðun sína á framtíðarnotkun tíðnisviðsins.

Umsókn hefur borist um úthlutun tíðninnar 452,5-457.5/462.5-467.5 MHz (áður notuð fyrir NMT farsímaþjónustu)
PFS vekur einnig athygli á að stofnuninni hefur nú þegar borist umsókn um úthlutun á 2x5 MHz (452,5-457.5/462.5-467.5 MHz) og er ætlun þess aðila að bjóða upp á farnetsþjónustu byggða á LTE450. PFS telur nokkuð auðvelt að losa tíðnisviðið 452,5-453 MHz og 462,5-463 MHz þannig að úthluta megi 2x5 MHz til þessarar þjónustu. PFS óskar eftir því að fá að vita hvort aðrir hagsmunaaðilar muni einnig sækjast eftir þeim hluta tíðnisviðsins sem nú hefur verið sótt um.

Svarfrestur og meðferð svara
Frestur hagsmunaaðila til að skila inn umsögnum er til kl. 12.00 föstudaginn 8. maí 2015. Svör skal senda til Þorleifs Jónassonar (thorleifur(hjá)pfs.is)
Stefnt er að því að birta þau svör sem berast við spurningunum í samráðinu. Hægt að óska eftir trúnaði varðandi tiltekin atriði og verður beiðni um slíkt að vera rökstudd.

Sjá samráðsskjalið:

Umræðuskjal um stefnu PFS fyrir ákveðin tíðnisvið 2015 - 2018

Til baka