Hoppa yfir valmynd

Kallað eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

Tungumál EN
Heim

Kallað eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í farsímanetum

1. apríl 2015

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7)

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 7, heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, skv. tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2008. PFS greindi viðkomandi markað fyrst á árinu 2006, síðan árið 2010 og þvínæst árið 2012. Er þetta því fjórða greining PFS á viðkomandi markaði. PFS ber að greina markaði með reglulegu millibili, en 2-3 ár hafa verið talin hæfileg í því sambandi nema sérstakar aðstæður kalli á greiningu með styttra millibili. 

Síðasta markaðsgreining PFS á viðkomandi markaði leit dagsins ljós með ákvörðun PFS nr. 3/2012. Þau drög sem hér liggja fyrir eru í meginatriðum sambærileg þeirri ákvörðun. PFS leggur t.a.m. til að áfram verði stuðst við verðsamanburð við ríki á EES-svæðinu við ákvörðun hámarksverða fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum hér á landi. Þau fyrirtæki sem ákvörðunin nær til eru Síminn, Vodafone, Nova, IMC/Alterna og 365 (áður Tal). Þá nær ákvörðunin til allra mögulegra farsímaneta fyrirtækjanna, þ.e. GSM neta (2G), UMTS neta (3G), LTE neta (4G) og sýndarneta (MVNO). 

Kvaðir á fyrirtækin verða áfram þær sömu að því undanskildu að kvöð um bókhaldslegan aðskilnað er afnumin af Símanum og Vodafone þar sem slíkt er óþarft ef byggt er á verðsamanburði. Slík kvöð hefur ekki gilt hvað hin fyrirtækin varðar. 

Vegna kvaðar um eftirlit með verðskrá er sérstaklega tekið fram í frumdrögunum að hámarkslúkningarverð sem PFS hyggst leggja til, gildi einungis um símtöl sem eiga uppruna sinn í netum fjarskiptafyrirtækja sem starfrækt eru innan EES svæðisins. Sú kvöð sem PFS hyggst leggja á um hámarksverð gildir því ekki um símtöl sem eiga uppruna í netum utan EES svæðisins.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað er til númer skjalsins og þeirra liða sem um ræðir. 

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 18. maí nk.  

Nánari upplýsingar veitir Guðmann B. Birgisson (gudmann(hjá)pfs.is).

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast nema sérstaklega verði óskað eftir trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal: Frumdrög greiningar að heildsölumarkaði fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum, M7 (pdf)

Til baka