Hoppa yfir valmynd

Kallað eftir samráði um fyrirhugaða heildsöluverðskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum talsímanetum

Tungumál EN
Heim

Kallað eftir samráði um fyrirhugaða heildsöluverðskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum talsímanetum

31. mars 2015

PFS kallar eftir samráði um heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í talsímanetum.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að greiningu á heildsölugjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum talsímanetum. Greiningin byggir á ákvörðun PFS nr. 36/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 2 og 3), sem birt var þann 14. desember 2012.

Samkvæmt ákvörðun PFS nr. 36/2012 skal ákvarða gjaldskrá fyrir upphaf og lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum með verðsamanburði. PFS hefur nú framkvæmt verðsamanburð í samræmi við þau skilyrði sem kveðið var á um ákvörðuninni og byggir niðurstaðan á meðalverði þeirra EES-ríkja sem falla undir þau skilyrði.
Niðurstaða frumgreiningar PFS sem hér er lögð fram til samráðs er að heildsölugjald fyrir upphaf símtala í föstu talsímaneti Símans skuli að hámarki vera 0,56 kr./mín. Það er jafnframt niðurstaða PFS að heildsölugjald fyrir lúkningu símtala í föstum almennum talsímanetum skuli vera 0,16 kr./mín. og skal það verð gilda sem hámarksverð hjá Símanum, Vodafone, Nova, Símafélaginu og Hringdu. Núverandi tengigjald er fellt brott þegar hin nýju verð taka gildi. Nánari lýsingu á þeim viðmiðum sem fylgt var við verðsamanburðinn má finna í frumdrögunum.

Þar sem um er að ræða töluverða lækkun á þessum heildsölugjöldum þá hyggst PFS fresta gildistöku þeirra til 1. janúar 2016 og munu verðin gilda til og með 31. desember 2016.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 27. apríl n.k.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is).

Samráðsskjal: Frumdrög að gjaldskrá á markaði 2 og 3 (pdf)
Viðauki I: Gengistafla (pdf)

 

Til baka