Hoppa yfir valmynd

Skil milli áskrifanda og rétthafa fjarskiptaþjónustu og greiðanda oft óskýr hjá fjarskiptafélögum

Tungumál EN
Heim

Skil milli áskrifanda og rétthafa fjarskiptaþjónustu og greiðanda oft óskýr hjá fjarskiptafélögum

24. febrúar 2015

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 1/2015 þar sem leyst er úr ágreiningi milli áskrifanda og rétthafa símanúmers og þjónustuaðila hans (Vodafone) vegna lokana á símanúmeri rétthafans. Voru lokanirnar framkvæmdar, án undanfarandi tilkynninga til notandans, vegna vanskila greiðanda sem í þessu tilfelli var annar en rétthafinn. Uppgefin ástæða símafélagsins voru vanefndir greiðanda á annarri þjónustu hjá fyrirtækinu, en ekki var um að ræða vanskil vegna símnotkunar rétthafa.

Með ákvörðuninni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að Vodafone hafi brotið gegn ákvæði 39. gr. fjarskiptalaga, þegar það lokaði símanúmeri rétthafa án þess að uppfylla skilyrði ákvæðisins um greiðsluáskorun og tilkynningar til áskrifanda.

Í framkvæmd virðist almennt sem skilin milli rétthafa og greiðanda séu óskýr hjá fjarskiptafélögum. PFS þykir því rétt að árétta að áskrifandi og rétthafi, þegar um er að ræða símaþjónustu, fer með réttindi og skyldur sem tengjast þjónustunni og númerinu, þ.m.t. ábyrgð á því að greiða áskriftargjöld fyrir fjarskiptanotkun. Umráðaréttur og þetta fyrirsvar verður ekki tekið af áskrifanda og rétthafa númers eða flutt yfir á annan aðila, nema að fengnu sannanlegu samþykki hans, sbr. 10. gr. reglna nr. 617/2010 um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum.

Tilkynning áskrifanda og samþykki fjarskiptafyrirtækis fyrir því að annar aðili greiði fyrir fjarskiptaþjónustuna telst ekki vera yfirlýsing um framsal númeraréttindanna til greiðanda. Í þessu tilfelli var ekki um það að ræða að greiðandi væri áskrifandi og rétthafi umrædds númers heldur var það notandinn sjálfur. Innheimtuaðgerðum og vanefndaúrræðum vegna vanskila verður óhjákvæmilega að beina að áskrifanda og rétthafa númers, en ekki að greiðanda þjónustunnar, sé það annar aðili.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 1/2015 um beitingu vanefndaúrræða af hálfu Vodafone

 

Til baka