Hoppa yfir valmynd

Ný og breytt kvöð á Mílu um aðgengi allra notenda að almenna fjarskiptanetinu

Tungumál EN
Heim

Ný og breytt kvöð á Mílu um aðgengi allra notenda að almenna fjarskiptanetinu

30. desember 2014

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur með ákvörðun sinni nr. 40/2014 lagt nýja alþjónustukvöð á Mílu um að útvega notendum tengingu við almenna fjarskiptanetið. Gerðar eru umtalsverðar breytingar á þeirri alþjónustuskyldu sem hingað til hefur hvílt á Mílu, og þar áður Símanum, en kvöðin hefur verið nær óbreytt frá árinu 2005.

Markmiðið með hinni nýju alþjónustukvöð er að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur um lagningu ljósleiðara til heimila í dreifbýli. Þetta er gert með því að útfæra nýja kostnaðarskiptingu í þeim tilvikum þar sem Míla kýs leggja nýjan ljósleiðara til heimila.

Með alþjónustu í fjarskiptum er átt við tiltekna þætti sem skulu standa öllum notendum til boða á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Auk aðgangs að almenna fjarskiptanetinu eru t.d. talsímaþjónusta (heimasími), lágmarks gagnaflutningsþjónusta og útgáfa símaskrár og upplýsingaþjónustu um símanúmer meðal þeirra þjónustuþátta sem falla undir alþjónustu. Sumir þessara þátta eru leystir af markaðsaðilum á samkeppnisforsendum. Það á t.d. við um talsímaþjónustu og upplýsingaþjónustu um símanúmer, en kvaðir á ákveðin fyrirtæki um að veita þá þjónustu hafa verið aflagðar.
Hins vegar telur PFS nauðsynlegt að viðhalda þeirri alþjónustukvöð að útvega notendum tengingu við almenna fjarskiptanetið og tryggja þannig aðgang allra landsmanna að lágmarks síma- og gagnaflutningsþjónustu.

Hingað til hafa sveitarfélög og hagsmunaaðilar og/eða notendur sjálfir, á einstökum svæðum tekið sig til og lagt staðbundin ljósleiðaranet til að koma til móts við síauknar kröfur íbúa um bætta fjarskiptaþjónustu. Án þeirra breytinga sem nú eru gerðar telur stofnunin hættu á að íbúar ákveðinna landshluta muni sitja eftir og geti ekki nýtt sér möguleika nútíma fjarskiptaþjónustu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Þeim skyldum sem nú eru lagðar á Mílu er m.a. ætlað að skapa hvetjandi umhverfi fyrir félagið til að endurnýja aðgangskerfi sitt á þeim stöðum þar sem fyrirséð er að nýjar tæknilausnir muni ekki koma til. Þar er átt við t.d. VDSL tækni sem gerir fyrirtækinu kleift að auka afkastagetu þess koparlínukerfis sem fyrir er. Míla mun hins vegar, eftir sem áður, hafa fullt forræði á því hvort og hvar fyrirtækið kemur til með endurnýja aðgangsnetið með ljósleiðara, þar sem ekki er hægt að styðjast við VDSL tækni.
Meðal þeirra breytinga sem felast í hinni nýju alþjónustukvöð eru:

  • Kostnaðarhlutdeild Mílu við að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið er lækkuð úr 650.000 kr. niður í 250.000 kr. fyrir hverja heimtaug
  • Sett er þak á kostnaðarhlutdeild notanda upp að 250.000 kr., en áður þurfti notandi að greiða allan kostnað umfram 650.000 kr.
  • Í þágu gagnsæis og jafnræðis eru sett ákveðin skilyrði fyrir mögulegri aðkomu jöfnunarsjóðs alþjónustu að fjármögnun verkefna, auk þess sem mælt er fyrir um 250.000 kr. hámarkskostnaðarhlut sjóðsins fyrir hverja heimtaug.
  • Kvöð Mílu er landfræðilega takmörkuð og gildir hún ekki í sveitarfélögum þar sem önnur fjarskiptafyrirtæki eða sveitarfélög hafa lagt heimtaugar og hafa raunhæfar áætlanir um að viðhalda og tryggja öllum íbúum tengingu við almenna fjarskiptanetið. Verða umrædd sveitarfélög tilgreind í viðauka við ákvörðunina sem verður birtur eigi síður en 30. júní 2015.

Hin nýja ákvörðun PFS um alþjónustukvöð Mílu tekur mið af markmiðum um að hvetja til uppbyggingar á ljósleiðara- og aðgangsnetum um land allt sem sett eru fram í þingsályktunum Alþingis um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011-2022 og fjögurra ára framkvæmdaáætlun fyrir árin 2011-2014. Einnig er litið til fjarskiptaáætlunar fyrir Evrópu (Digital Agenda for Europe) sem hefur sama markmið um almennt aðgengi að fjarskiptum.
Við vinnslu málsins hafði stofnunin víðtækt og opið samráð við hagsmunaaðila og bárust fjölmargar umsagnir frá ýmsum aðilum, m.a. fjarskiptafyrirtækjum, eintökum sveitarfélögum og samtökum þeirra, Byggðastofnun og Bændasamtökunum.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 40/2014 um að útnefna Mílu ehf. með alþjónustukvöð

Til baka