Hoppa yfir valmynd

Tilkynningaskylda fjarskiptafyrirtækja varðandi gagnanotkun á ferðalögum erlendis

Tungumál EN
Heim

Tilkynningaskylda fjarskiptafyrirtækja varðandi gagnanotkun á ferðalögum erlendis

11. desember 2014

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt ákvörðun sína í máli varðandi tilkynningaskyldu fjarskiptafyrirtækja um gagnanotkun á ferðalögum utan EES – svæðisins.

Á EES svæðinu er í gildi reglugerð um reiki á almennum farsímanetum. Reglugerðin inniheldur ákvæði um verðþök og upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja til viðskiptavina sinna á ferðalögum.  Reglugerðinni er fyrst og fremst ætlað draga úr mismun á gjaldskrám sem fólk greiðir eftir í heimalandi sínu og þegar það er á ferðalögum og tryggja þannig að notendur fartækja á ferðalagi innan svæðisins borgi ekki óhóflegt verð fyrir síma- og netþjónustu. Auk þess að setja verðþök kveður reglugerðin á um upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtæka til viðskiptavina sinna. Þeir skulu fá skilaboð um að þeir séu að nota reikiþjónustu og hvaða verð eru í gildi í viðkomandi landi. Einnig eiga þeir að fá tilkynningu þegar gagnanotkun þeirra hefur náð ákveðnu hámarksþaki sem nemur 50 evrum. Þegar 50 evru hámarki er náð skal fjarskiptafyrirtæki loka á frekari gagnanotkun nema viðskiptavinurinn fari fram á annað.

Annað getur þó átt við þegar fólk er á ferð utan evrópska efnahagssvæðisins. Þá er oft á tíðum ekki möguleiki á að bjóða upp á verðþök þar sem fjarskiptafyrirtæki geta ekki fylgst með notkun viðskiptavina sinna í rauntíma.

Sú skylda hvílir hins vegar á fyrirtækinu í öllum tilfellum að senda viðskiptavini skilaboð þegar hann kemur til lands utan EES–svæðisins þar sem vakin er athygli á að ekki sé hægt að bjóða upp á verðþök í viðkomandi landi og nauðsynlegt sé að hafa gát á notkun sinni. Þetta gildir sérstaklega þar sem enginn samningur við fjarskiptafyrirtæki í viðkomandi landi er til staðar og ekki hægt að fylgjast með notkun viðskiptavinarins í rauntíma. Í þeim tilvikum er mikilvægt fyrir neytendur að fylgjast vel með gagnanotkun sinni.

Sú ákvörðun PFS sem nú er birt er til komin í framhaldi af erindi frá fjarskiptafyrirtækinu Hringdu ehf. þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar vegna kvörtunar er varðaði gagnanotkun í Tyrklandi. Hafði viðskiptavinur fyrirtækisins notað mikið gagnamagn á stuttum tíma í landinu en fyrirtækið ekki með samninga sem gerðu því kleift að fylgjast með notkuninni í rauntíma og senda viðvörun. Fyrirtækið hafði sent notandanum skilaboð með upplýsingum um verð við komuna til Tyrklands. Hins vegar fékk viðkomandi ekki viðvörun um að verðþök væru ekki í gildi í landinu. Því telur stofnunin Hringdu hafa brotið gegn ákvæði um tilkynningaskyldu í reglugerð ESB um reiki.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 33/2014 vegna gjaldfærslu Hringdu ehf. fyrir reikiþjónustu utan EES-svæðisins

Sjá einnig upplýsingar fyrir neytendur um síma- og netnotkun í útlöndum hér á vefnum.

 

Til baka