Hoppa yfir valmynd

Leiðbeiningar um uppbyggingu ljósleiðaraneta og ríkisaðstoðarreglur EES

Tungumál EN
Heim

Leiðbeiningar um uppbyggingu ljósleiðaraneta og ríkisaðstoðarreglur EES

19. nóvember 2014

Innanríkisráðuneytið hefur nú birt á vef ráðuneytisins leiðbeiningar fyrir sveitarfélög og aðra opinbera aðila vegna uppbyggingar ljósleiðarakerfa. Fól ráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun að útbúa leiðbeiningar en þær fela í sér upplýsingar um regluverk EES-samningsins á sviði samkeppni og ríkisaðstoðar, tæknikröfur, upplýsingar um kröfur í útboðum ásamt fyrirmynd að útboðsgögnum og að samningi við fjarskiptafyrirtæki um tengingu og rekstur ljósleiðarakerfa.

Óskaði innanríkisráðuneytið eftir ofangreindum upplýsingum í þeirri viðleitni að styðja við undirbúning og framkvæmd við uppbyggingu ljósleiðarakerfa á vegum opinberra aðila, einkum sveitarfélaga. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnaði verkefnið á grundvelli markmiða byggðaáætlunar 2014-2017 um stuðning við uppbyggingu öflugs gagnanets.
 
Leiðbeiningunum er ætlað að vera til stuðnings við mat á því hvort verkefni opinberra aðila eða styrkt af þeim teljist til tilkynningarskyldra ríkisstyrkja og hvort styrkurinn teljist samrýmanlegur EES-samningnum með tilliti til þeirra undanþágureglna sem þar gilda. Þá var það einnig tilgangur ráðuneytisins að setja fram samræmda lýsingu á tæknilegri tilhögun ljósleiðaraneta sem gæti stuðlað að vandaðri og hagkvæmri uppbyggingu og rekstri þeirra. Enn fremur að auðvelda opinberum aðilum skipulagningu slíkra verkefna með því að útbúa fyrirmyndir að útboðskilmálum auk samtengisamnings vegna reksturs slíkra neta. 

Sjá má leiðbeiningarnar og viðauka við þær hér: 

Leiðbeiningar um uppbyggingu ljósleiðaraneta og ríkisaðstoðarreglur EES

Til baka