Hoppa yfir valmynd

PFS boðar ákvörðun um skyldu Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið

Tungumál EN
Heim

PFS boðar ákvörðun um skyldu Mílu til að útvega tengingar við almenna fjarskiptanetið

5. september 2014

Póst- og fjarskiptastofnun hefur sent Mílu ehf. boðaða ákvörðun um þá skyldu innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um alþjónustu, nr. 1356/2007, sbr. 3. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. fjarskiptalaga nr. 83/2003.

Boðun ákvörðunarinnar kemur í framhaldi af umræðuskjali stofnunarinnar sem birt var hér á vefnum þann 21. febrúar 2014, þar sem hagsmunaaðilum var boðið að tjá sig um nokkrar leiðir sem kynntar voru.

Í samráðinu bárust athugasemdir frá 10 aðilum og voru þær birtar á heimasíðu PFS þann 2. september sl.

Á undanförnum árum hefur ákall notenda eftir öflugri tengingum sífellt aukist. Á nokkrum stöðum á landinu hafa fyrirtæki lagt ljósleiðara heim til notenda sem gefur kost á bandbreiðari tengingum. Þetta hefur m.a. verið gert í Reykjavík, Akureyri og nokkrum minni stöðum á landinu.

Míla hefur einnig uppfært aðgangskerfi sitt með svokallaðri Ljósveitu (VDSL tækni). Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að hægt sé að uppfæra um 90% af núverandi tengingum fyrirtækisins með þessari tækni. Það er einkum fjarlægð heimila frá götuskáp, sem kemur í veg fyrir að fyrirtækið geti uppfært allar tengingar fyrirtækisins með þessari tækni.

Ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir munu þó 10% af heimilum landsins ekki eiga kost á háhraðatengingum um almenna fjarskiptanetið nema að farið verið í endurnýjun á þeim tengingum sem fyrir eru. Í því felst í flestum tilfellum að skipta út núverandi koparheimtaugum fyrir ljósleiðara.

Míla, sem er núverandi alþjónustuhafi, hefur hins vegar hingað til ekki séð sér fært að fara í slíka endurnýjun þar sem aðstæður eru þannig að kostnaðar við endurnýjunina er mikill en litlir möguleikar til að endurheimta fjárfestinguna í gegnum gjaldskrár félagsins.

Í hinni boðuðu ákvörðun gagnvart Mílu sem hér er sett fram er gert ráð fyrir að kostnaði við endurnýjun á þeim svæðum þar sem talið er að markaðsbrestur sé til staðar verði skipt upp á milli Mílu (alþjónustuhafa), notanda og eftir atvikum jöfnunarsjóðs alþjónustu. Gert er ráð fyrir að um þrepaskipta kostnaðarhlutdeild verði að ræða. Þetta er nánar sett fram í lið 5.5 í hinni boðuðu ákvörðun.

Jafnframt verður Mílu heimilt að sleppa því að leggja tengingar þar sem kostnaður færi yfir 2 milljónir. Þetta á við í þeim tilvikum þar sem fjöldi tenginga sem þyrfti að endurnýja er undir 200 talsins.

Þá eru í hinni boðuðu ákvörðun sett tiltekin skilyrði fyrir úthlutun úr jöfnunarsjóði alþjónustu.

Gert er ráð fyrir að útnefningin geti gilt til 31. desember 2020, en endurskoðun á kostnaðarhlutdeild aðila skal vera lokið fyrir 1. janúar 2017.

Hér með er öllum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með athugsemdir við hina boðuðu ákvörðun.

Frestur til að koma að athugasemdum er til 26. september 2014.


Sjá hina boðuðu ákvörðun í heild:
Boðun ákvörðunar PFS um skyldur Mílu ehf., innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið


Til baka