Hoppa yfir valmynd

PFS birtir umræðuskjal um alþjónustuskyldur varðandi aðgang að almenna fjarskiptanetinu

Tungumál EN
Heim

PFS birtir umræðuskjal um alþjónustuskyldur varðandi aðgang að almenna fjarskiptanetinu

21. febrúar 2014

Samkvæmt fjarskiptalögum eiga allir landsmenn rétt á aðgangi að almenna fjarskiptanetinu eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum og reglugerð um alþjónustu á sviði fjarskipta nr. 1356/2007.

Hingað til hafa koparheimtaugar verið uppistaðan í aðgangslínum notenda en á síðustu árum hafa ljósleiðaratengingar í síauknum mæli tekið við, þó fyrst og fremst í þéttbýli.  Eiginleikar heimtauga ráða því hvaða þjónustu hægt er að veita á heimtauginni. Vegalengd frá símstöð til heimilis ræður því hvort hægt er að veita háhraðanetsþjónustu yfir koparheimtaugina. Í dreifbýli eru vegalengdir að öðru jöfnu það miklar að ekki er hægt að veita háhraðanetþjónustu yfir slíkar heimtaugar.

Til að ná markmiðum stjórnvalda í fjarskiptaáætlun um stóraukinn hraða nettenginga alls staðar á landinu þarf því að ráðast í viðamikla endurnýjun á heimtauganetinu í dreifbýli þar sem ljósleiðari verði settur í stað koparheimtauga. Einnig gæti önnur tækni, t.d. 4G, komið til greina þar sem það á við.

Póst- og fjarskiptastofnun birtir nú umræðuskjal um það hvernig hægt verði að stuðla að slíkri þróun heimtauganetsins með þátttöku markaðsaðila á grundvelli álagningar alþjónustukvaðar.

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 30/2013 frá 18. desember sl. var fjarskiptafyrirtækið Míla ehf. útnefnt með skyldu til að veita aðgang að tengingu við almenna fjarskiptanetið. Útnefningin gildir frá og með 1. janúar 2014 til og með 31. júní nk., en skv. ákvörðuninni er heimilt að framlengja útnefningartímabilið til 31. desember 2014 með tilkynningu til Mílu þar að lútandi. Jafnframt var boðað að PFS myndi birta umræðuskjal um framtíðarfyrirkomulag um þá skyldu, innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið.

Stofnunin birtir nú umrætt umræðuskjal ásamt viðauka. Þar er m.a. að finna umfjöllun um eftirtalin atriði:

  • að skylda alþjónustuhafa (nú Mílu) verði afmörkuð við þau svæði þar sem fyrirtækið er eitt með tengingar
  • hvernig eðlilegast sé að standa að endurnýjun aðgangsnetsins, einkum á þeim svæðum þar sem talið er að fyrirtæki ráðist ekki í endurnýjun á viðskiptalegum forsendum, þ.e. þar sem talið er að markaðsbrestur sé til staðar
  • hvernig eigi að skilgreina þau svæði þar sem talið er að markaðsbrestur sé til staðar
  • mismunandi aðferðarfræði við skiptingu kostnaðar
  • heimildir alþjónustuveitanda til að sleppa endurnýjun aðgangsnetsins á einstökum stöðum
  • setningu fyrirfram skilgreinda viðmiðana fyrir greiðslur úr jöfnunarsjóði alþjónustu

Hér með er kallað eftir umsögnum og athugasemdum hagsmunaaðila við efni þessa skjals og meðfylgjandi viðauka við það.

Frestur til að skila inn umsögnum/athugasemdum er til og með 1. apríl 2014.

Að loknu samráðinu mun PFS móta tillögu um mögulega útfærslu kvaðarinnar og hagsmunaaðilum mun verða gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum á ný áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

PFS mun birta opinberlega allar umsagnir og athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Umræðuskjal um framtíðarfyrirkomulag alþjónustu varðandi þá skyldu innan alþjónustu, að útvega tengingu við almenna fjarskiptanetið

Til baka