Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til samráðs um viðauka vegna aðgangsleiðar 1 hjá Mílu og viðbótarþjónustu (markaður 5)

Tungumál EN
Heim

PFS efnir til samráðs um viðauka vegna aðgangsleiðar 1 hjá Mílu og viðbótarþjónustu (markaður 5)

21. febrúar 2014

Með tölvupósti frá Mílu, dags. 20. febrúar sl., barst Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) ósk félagsins um samþykki stofnunarinnar fyrir breytingu á viðmiðunartilboði Mílu um bitastraumsaðgang að því er varðar aðgangsleið 1 og tiltekna viðbótarþjónustu við þá leið. Um er að ræða viðauka sem yrði viðauki 5 við ofangreint viðmiðunartilboð, samþykki PFS áform Mílu.

Fram kemur í máli Mílu að viðaukanum sé ætlað að breyta viðmiðunartilboði félagsins vegna bitastraumsaðgangs í samræmi við ákvörðun PFS nr. 38/2012 og skyldi gilda þar til viðmiðunartilboði um bitastraumsaðgang verður breytt með heildstæðum hætti.

Meginbreytingin er sú að nú er unnt að nota umrædda heildsöluskipta á fjölbreyttari hátt en áður var gert ráð fyrir, t.d. til beinna fyrirtækjatenginga, stofnlínutenginga eða tenginga við farsímasenda. Þar sem ekki hafa verið settir upp heildsöluskiptar, og tengiskil eru laus, er fjarskiptafyrirtækjum heimilt að nýta þessi tengiskil og gildir þá verðskrá vegna nýtingar porta í heildsöluskiptum einnig fyrir þessi tengiskil. Þá er gert ráð fyrir að verð breytist til samræmis við fyrirhugaða ákvörðun PFS um breytingar á verðum fyrir þjónustu tengda heildsöluskiptum sem fór í samráð í dag.

Þar sem meginreglan er sú að Mílu er óheimilt að veita nýja þjónustu sem PFS hefur ekki samþykkt og ekki hefur verið birt í viðmiðunartilboði Mílu sem PFS hefur samþykkt, beinir PFS þeim tilmælum til Mílu að veita ekki hina nýju þjónustu þar til PFS hefur veitt samþykki sitt fyrir því. Það gæti gerst við endanlega ákvörðun í málinu (væntanlega í lok apríl eftir samráðsferli við Eftirlitsstofnun EFTA – ESA), eða með sérstöku samþykki PFS eftir að því samráði sem hér er efnt til er lokið. Samþykki PFS fyrir að heimila Mílu að veita umrædda þjónustu áður en endanleg ákvörðun í málinu er tekin er háð því að markaðsaðilar lýsi sig ekki andsnúna því í því samráði sem hér er efnt til.

Hér með er óskað viðbragða hlutaðeigandi aðila við óskum Mílu um framangreindar breytingar á viðmiðunartilboði félagsins um bitastraumsaðgang.

Athugasemdir skulu berast með pósti eða með tölvupósti til Póst- og fjarskiptastofnunar, stílaðar á Huldu Ástþórsdóttur (hulda(hjá)pfs.is) ekki síðar en 7. mars 2014.

Sjá samráðsskjal
Viðauki vegna aðgangsleiðar 1 hjá Mílu og vegna viðbótarþjónustu (PDF)

Til baka