Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3

20. desember 2013

PFS kallar eftir samráði um endurskoðun gjaldskrár Mílu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleiðum 1 og 3.

Kostnaðargreiningin kemur í kjölfar ákvörðunar PFS nr. 38/2012 um aðgangsleið 1, sem byggir á ákvörðun PFS nr. 8/2008 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang.

Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar (sjá meðfylgjandi samráðsskjal).

Það er fyrirhuguð niðurstaða PFS að ekki skuli gerður greinarmunur á verði fyrir ADSL og VDSL þjónustu í aðgangsleiðum 1 og 3. Áformað er að mánaðarverð fyrir aðgangsleið 1 verði 912 kr. en mánaðarverð aðgangsleiðar 3 verði 1.367 kr. Samanborið við núverandi bráðabirgðaverð þá helst verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 nánast óbreytt, en verð fyrir VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 1 lækkar um tæp 17%, gangi áformin eftir. Við samræmingu gjaldskrár fyrir ADSL og VDSL þjónustu er gert ráð fyrir að verðið á ADSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 lækki á meðan verðið á VDSL tengingu samkvæmt aðgangsleið 3 hækki.

Í framangreindri kostnaðargreiningu Mílu ehf. voru jafnframt reiknuð verð fyrir sjónvarpsþjónustu (e. multicast), VoIP þjónustu og aðgang að heildsöluskipti í aðgangsleið 1. Hina fyrirhuguðu nýju gjaldskrá má finna í heild sinni í viðauka I í fyrirhugaðri ákvörðun PFS.

Fyrirhugað er að hin nýja verðskrá Mílu ehf. taki gildi næstu mánaðamót eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í málinu. Eftir það innanlandssamráð sem hér er efnt til fara ákvörðunardrögin til samráðs við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Gera má ráð fyrir að hin nýja verðskrá taki því gildi þann 1. mars eða 1. apríl 2014 og að fyrirtækið uppfæri viðmiðunartilboð sitt um bitastraumsaðgang eigi síðar en við gildistöku nýrrar gjaldskrár.

Þá leggur PFS til í þessari fyrirhuguðu ákvörðun að Míla endurskoði kostnaðargreiningu sína fyrir aðgangsleið 2 og afhendi PFS niðurstöðu slíkrar greiningar eigi síðar en 3 mánuðum frá birtingu ákvörðunarinnar.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar PFS hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun PFS senda drögin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 13. janúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is).

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal:

Drög að ákvörðun varðandi kostnaðargreiningu fyrir bitastraumsaðgang samkvæmt aðgangsleið 1 og 3 (PDF)

 

Til baka