Hoppa yfir valmynd

PFS hafnar að svo stöddu umsókn Mílu um alþjónustuframlag vegna reksturs koparlínukerfis í strjálbýli

Tungumál EN
Heim

PFS hafnar að svo stöddu umsókn Mílu um alþjónustuframlag vegna reksturs koparlínukerfis í strjálbýli

20. desember 2013

Með ákvörðun nr. 29/2013, dags. 17. desember sl., hafnar Póst- og fjarskiptastofnun að svo stöddu umsókn Mílu um tæplega 200 millj. kr. framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu fyrir árið 2013 vegna taps á rekstri koparlínukerfis félagsins í strjálbýli.

Að mati PFS er það grundvallaratriði að litið sé á Mílu og Símann sem eina efnahagslega einingu við mat á umræddri umsókn og að sú framlegð sem Síminn hefur vegna umræddra tenginga í strjálbýli komi til frádráttar þeim kostnaði sem Míla telur að felist í veitingu umræddrar þjónustu á umræddum stöðum, þ.m.t. tekjur vegna síma-, internet- og sjónvarpsþjónustu.

Þá mælir PFS fyrir um að nettókostnað Mílu, vegna umræddrar umsóknar, skuli reikna þannig út að fyrst beri að ákvarða kostnað heimtaugar hjá Mílu, áður en heimtaugaleigutekjur félagsins, framlegð þjónustu Símans yfir tenginguna í heildsölu og smásölu og markaðsávinningur samstæðunnar sé dreginn frá. Sé einhver nettókostnaður fyrir hendi eftir þessa útreikninga skuli síðan meta hvort sá kostnaður sem eftir stendur telst ósanngjörn byrði á Skiptasamstæðuna, en það skilyrði þarf að uppfylla svo PFS sé heimilt að ákvarða Mílu alþjónustuframlag.

Ennfremur hefur áhrif á umrædda umsókn að PFS heimilaði Mílu að hækka heimtaugaleiguverð sín um 8,6% frá og með 1. ágúst sl., eftir að framangreind umsókn Mílu barst PFS. Sú hækkun gerir það að verkum að hið meinta tap sem jöfnunarsjóðsframlaginu var ætlað að bæta er mun minna en fram kom í hinni upphaflegu umsókn. Míla þarf því að taka tillit til þessa ef félagið hefur í hyggju að leggja inn uppfærða umsókn til PFS.

PFS mun taka umsóknina aftur til meðferðar ef Míla færir hana í það horf sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni og afhendir þau gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að leggja fullnægjandi mat á umsóknina. Endurnýjuð umsókn skal berast PFS eigi síðar en 1. júlí 2014. Að öðrum kosti lítur PFS svo á að Míla hafi fallið frá umræddri umsókn.

Sjá ákvörðunina í heild:

Ákvörðun PFS nr. 29/2013 - Umsókn Mílu um alþjónustuframlag vegna reksturs koparlínukerfis í strjálbýli (PDF)


Til baka