Hoppa yfir valmynd

PFS afléttir alþjónustukvöðum af Já upplýsingaveitum og afturkallar númerið 118

Tungumál EN
Heim

PFS afléttir alþjónustukvöðum af Já upplýsingaveitum og afturkallar númerið 118

20. desember 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína nr. 31/2013, varðandi endurskoðun alþjónustukvaða á Já upplýsingaveitur hf. (Já). Með ákvörðuninni eru felldar niður þær alþjónustukvaðir sem lagðar voru á félagið með ákvörðun PFS nr. 22/2011, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála í máli nr. 4/2011. Samkvæmt núgildandi alþjónustukvöðum bar félaginu annast útgáfu símaskrár, bæði prentaðrar og vefútgáfu, annast rekstur upplýsingaþjónustu um símanúmer og annast varðveislu gagnagrunns yfir alla áskrifendur á Íslandi.

Þá birtir PFS hér niðurstöður samráðs við hagsmunaaðila vegna endurskoðunar á alþjónustukvöðum Já Upplýsingaveitna hf., breytingar á fyrirkomulagi skráningarhalds yfir áskrifendur og breytingar á númeraskipulagi fyrir upplýsingaveitur, sem stofnunin kallaði eftir þann 24. júní 2013. Alls skiluðu fjórir aðilar inn athugasemdum við aðgerðir PFS samkvæmt samráðsskjalinu, þ.e. Já upplýsingaveitur hf., Miðlun ehf., Loftmyndir ehf. og Síminn hf. Þann 12. nóvember sl. birti stofnunin samantekt á innsendum athugasemdum en birtir nú afstöðu sína gagnvart þeim athugasemdum sem bárust. Skjalið má nálgast í heild hér neðst í fréttinni.

Eins og rakið er í ákvörðun 31/2013 hyggst PFS afturkalla þær alþjónustukvaðir sem í gildi eru gagnvart Já. Um er að ræða kvaðir um útgáfu prentaðrar og rafrænnar símaskrár, rekstur upplýsingaþjónustu í símanúmerinu 118 og varðveislu gagnagrunns yfir alla áskrifendur hér á landi, sbr. 1.-3. tölulið. ákvörðunar PFS nr. 22/2011. Tekur afléttingin gildi frá og með deginum í dag.

Í ákvörðuninni er að finna sömu afstöðu og boðuð var í samráðsskjali PFS frá 24. júní sl. varðandi nauðsyn fyrir útgáfu prentaðrar símaskrár. Að mati PFS eru ekki til staðar í dag þær samkeppnislegu forsendur sem þarf til að tryggja slíka útgáfu. Sú niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að falla frá boðaðri kvöð á Já um útgáfu prentaðrar símaskrár byggir á þeirri skuldbindandi yfirlýsingu sem Já hefur sent frá sér og er viðauki við ákvörðunina. Á grundvelli þeirrar yfirlýsingar Já um útgáfu prentaðrar símaskrár til næstu þriggja ára telur stofnunin tryggt að skilyrði fyrir alþjónustu um slíka útgáfu sé uppfyllt. Með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga er það því ákvörðun stofnunarinnar að fella niður umrædda kvöð á félagið.

Öðru máli gegnir hins vegar þegar kemur að vefútgáfu símaskrárinnar, upplýsingaþjónustu um símanúmer og varðveislu gagnagrunns eftir að nýtt fyrirkomulag skráningarhalds kemst til framkvæmdar árið 2014. Að mati PFS mun, með breyttu fyrirkomulagi skráningarhalds, skapast grundvöllur fyrir aðila til að keppa á markaði fyrir upplýsingaþjónustur um símanúmer sem að sama skapi tryggir að þjónustan sé veitt án íþyngjandi inngripa stjórnvalda með álagningu kvaða.

Í ákvörðuninni er einnig tilgreint að hætt skuli notkun á símanúmerinu 118 eigi síðar en 30. júní 2015 og er heimild Já til notkunar á símanúmerinu því afturkölluð frá þeim tíma. Fyrir það tímamark verður aðilum á markaði þó heimilt að veita upplýsingaþjónustu um símanúmer í fjögurra tölustafa símanúmerum úr 1800 númeraröðinni, sbr. niðurstöður samráðsins.

Sjá ákvörðunina í heild:
Ákvörðun PFS nr. 31/2013 - Aflétting alþjónustukvaða Já upplýsingaveitna hf. og afturköllun leyfis til notkunar á símanúmerinu 118 (PDF)

Sjá einnig:
Niðurstöður samráðs PFS við hagsmunaaðila frá 24. júní 2013 um endurskoðun alþjónustukvaða Já upplýsingaveitna hf., breytt fyrirkomulag skráningarhalds yfir áskrifendur og númeraskipulag fyrir upplýsingaþjónustur (PDF)

Til baka