Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um viðbótarafslætti vegna reglubundinna viðskipta fyrir magnpóst

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um viðbótarafslætti vegna reglubundinna viðskipta fyrir magnpóst

2. desember 2013

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum í máli nr. 3/2013 staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 14/2013 frá því í júlí sl. um breytingar á viðskiptaskilmálum Íslandspósts, viðbótarafsláttur vegna reglubundinna viðskipta fyrir magnpóst.

Forsaga málsins er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2012 felldi nefndin úr gildi þann hluta af ákvörðun PFS nr. 16/2012, sem fjallaði um viðbótarafslátt vegna reglubundina viðskipta, með þeim rökum að skort hafi nægjanlegan rökstuðning fyrir þeim afsláttarprósentum sem ákveðnar voru.

Í samræmi við þessa niðurstöðu nefndarinnar var þessi þáttur málsins tekin á ný til meðferðar sem lauk með fyrrnefndri ákvörðun PFS nr. 14/2013.

Í niðurstöðu nefndarinnar í úrskurðinum nú segir m.a. að gjaldskrár Íslandspósts skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu. Telur úrskurðarnefnd að sú aðferð sem PFS beitti við útreikninga á viðbótarafslætti samræmist þessari meginreglu laga um póstþjónustu, en sú aðferð byggði á kostnaðargreiningu Íslandspósts, sem PFS hafði yfirfarið og samþykkt með breytingum. Í ákvörðun sinni birti PFS einnig mat á því hvort réttlæta mætti stærð viðbótarafsláttar vegna reglubundina magnviðskipta á grundvelli hagræðis í rekstri Íslandspósts. Mat PFS var hagræðið sem framangreind viðskipti hefðu í för með sér réttlættu afsláttinn.

Þá vísar úrskurðarnefndin til fyrrnefnds úrskurðar síns nr. 5/2012, þar sem fram kemur að reglubundin magnviðskipti ættu að auka yfirsýn póstrekanda og þar með skilvirkni og möguleika Íslandspósts til þess að hagræða í rekstri og að slík viðskipti ættu að valda því að betur mætti skipuleggja það fjármagn og mannafla sem nota þyrfti til að taka við pósti frá stórnotendum og koma jafnframt í veg fyrir ofmönnun eða fjárfestingu.
Niðurstaða úrskurðarnefndar er að mat PFS á viðbótarafslætti vegna reglubundina viðskipta í hinni kærðu ákvörðun séu í samræmi við framangreind sjónarmið.

Með vísan til hinnar kærðu ákvörðunar og skýringa PFS í greinargerð er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að PFS hafi aflað nauðsynlegra upplýsinga og fært rök fyrir ákvörðun um að viðbótarafsláttur skuli vera 2-5% vegna heildarviðskipta á mánuði. Uppfyllti hin kærða ákvörðun því rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og kröfur 22. gr. sömu laga um rökstuðning ákvarðana. Taldi nefndin því rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun og var kæranda gert að greiða 1.286.000 í málskostnað.

Sjá úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 3/2013 í heild (PDF)

 

 

Til baka