Hoppa yfir valmynd

Ábúanda ber að framkvæma úrbætur vegna fjarskiptatruflunar frá rafmagnsgirðingu á eigin kostnað

Tungumál EN
Heim

Ábúanda ber að framkvæma úrbætur vegna fjarskiptatruflunar frá rafmagnsgirðingu á eigin kostnað

20. september 2013

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur með úrskurði sínum nr. 1/2013, frá 14. september 2013, staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 7/2013 þess efnis að ábúanda (kæranda) á tiltekinni jörð á Vestfjörðum beri að fara að fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar um að framkvæma úrbætur á eigin kostnað til að fyrirbyggja fjarskiptatruflanir frá rafmagnsgirðingu sem er í hans eigu. Truflunin frá umræddri rafmagnsgirðingu hefur skaðleg áhrif á síma- og netsamband um jarðsímalínu sem liggur samhliða girðingunni um jörð kæranda.

Fyrirmæli Póst- og fjarskiptastofnunar fólust í því að kæranda var gert að færa hluta af rafmagngirðingunni að ytri jaðri túnsins og með því leiða burðarstraum hennar frá þeim kafla girðingarinnar sem liggur samsíða jarðsímalínunni girðingunni. Var sú framkvæmd kostnaðarmetin að upphæð kr. 1.009.600 kr. (á verðlagi ársins 2012).

Hins vegar fann úrskurðarnefndin að því að mögulegar aðrar leiðir til úrbóta, heldur en sú sem Póst- og fjarskiptastofnun mælti fyrir um, hefðu ekki verið kostnaðarmetnar. Þær mögulegu leiðir til úrbóta sem nefndin hefur hér einkum í huga, eru annars vegar að endurnýja rafmagnsgirðinguna á þeim kafla sem hún liggur samsíða símalínunni og hins vegar að færa símalínuna frá girðingunni. Í greinargerð sinni fyrir úrskurðarnefnd benti Póst- og fjarskiptastofnun m.a. á að fyrri leiðin væri ekki í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar um uppsetningu rafmagnsgirðinga, þ.e. um að beina burðarstraumi frá girðingarhlutum sem lægju samhliða símstrengjum, og því væri óvíst um árangur af því að endurnýja girðinguna á þeim kafla. Stofnunin teldi einnig augljóst að seinni leiðin, að færa símalínuna, væri mun dýrari lausn með tilliti til þeirra jarðvegsframkvæmda sem hún hefði í för með sér. En þar sem Póst- og fjarskiptastofnun hafði ekki kostnaðarmetið þessar leiðir taldi úrskurðarnefndin að málið hefði ekki verið nægilega vel rannsakað að þessu leyti og því væri ekki tryggt að ódýrasta og minnst íþyngjandi leiðin til úrbóta fyrir kæranda hefði orðið fyrir valinu.


Með vísan til þessa staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar með sérstökum fyrirvara um að gefa kæranda tækifæri til þess, innan hæfilegs frests, að sýna fram á hagkvæmari leið til að ná því markmiði sem að væri stefnt, þ.e. að koma í veg fyrir fjarskiptatruflanir, að uppfylltu því skilyrði að Póst- og fjarskiptastofnun gæti fallist á þá leið. Að lokum var tekið fram að kærandi skyldi ljúka við úrbætur innan þess frests sem Póst- og fjarskiptastofnun myndi setja.

Sjá úrskurðinn í heild:
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 1/2013 (PDF)

Sjá einnig frétt um ákvörðun PFS á vef stofnunarinnar frá 26. júní sl.


Til baka