Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá fyrir lúkningu í farsímanetum

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um gjaldskrá fyrir lúkningu í farsímanetum

22. ágúst 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að greiningu á heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Greiningin byggir á ákvörðun PFS nr. 3/2012 um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (markaður 7) og tekur mið af úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2012 frá 30. júní sl.

Samkvæmt framangreindri ákvörðun PFS nr. 3/2012 skal jafna og lækka hámarks lúkningarverð, þ.e. verð sem farsímafyrirtæki tekur fyrir að ljúka símtali í sínu kerfi sem hefst í öðru kerfi. Lúkningarverð allra farsímarekenda hér á landi hafa verið jöfn í 4 kr./mín. frá 1. janúar 2013, en höfðu um árabil verið ójöfn og mun hærri. Skv. ákvörðuninni skal PFS framkvæma árlegan verðsamanburð með ákvörðun eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við ESA. Niðurstaðan skal byggjast á meðalverði þeirra EES-ríkja sem beita þeirri aðferðarfræði við kostnaðargreiningu sem nánari er lýst í frumdrögunum.

Með ákvörðun PFS nr. 32/2012 frá 1. nóvember 2012 kvað stofnunin á um að lúkningarverð skyldu lækkuð í 1,66 kr./mín. þann 1. júlí sl. Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2012, sem birtur var í júní sl., var sá þáttur ákvörðunarinnar sem varðar gildistökutíma lækkunarinnar þann 1. júlí sl. felldur úr gildi, en aðferðarfræði PFS staðfest að öðru leyti. Taldi úrskurðarnefndin PFS hafa brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga varðandi umrædda gildistöku þar sem fá lönd í Evrópu höfðu þá tekið sambærilegar ákvarðanir. Lagði úrskurðarnefnd fyrir PFS að taka aðra ákvörðun um gildistöku þeirra.

Niðurstaða frumgreiningar PFS sem hér er lögð til samráðs er að frá og með 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 skulu lúkningargjaldið vera 1,64 kr./mín. hjá öllum íslenskum farsímanetsrekendum, þ.e. Símanum, Vodafone, Nova, IMC/Alterna og Tali. Framangreint byggist á því að innleiðing hreinna (pure) LRIC kostnaðarlíkana í samræmi við tilmæli ESB og ESA hafa leitt til verulegra lækkana á lúkningarverðum meðal ríkja á EES-svæðinu á undanförnum misserum.

Óskað er viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér liggja fyrir, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til og með 5.september nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)pfs.is)

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal:
Frumdrög – Heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum (Markaður 7) (PDF)

Sjá einnig:

Ákvörðun PFS nr. 3/2012
Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 6/2012 (PDF)

Til baka