Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði um markaðsgreiningar á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum og breiðbandsaðgang

7. mars 2013

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lokið við frumdrög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum annars vegar og breiðbandsaðgang hins vegar. Um er að ræða markaði 4 og 5 í tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um viðkomandi markaði frá 2008.
Óskar stofnunin nú viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér eru lögð fram, sbr. 6. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.

Samráðsskjalið má nálgast sem PDF skjal neðst í þessari frétt.

Markaður 4, heildsölumarkaður fyrir aðgang að föstum aðgangsnetum
Þessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 26/2007 (þá markaður 11 skv eldri tilmælum ESA). Þá einskorðaðist markaðurinn við heildsöluaðgang að koparheimtaugum en er nú orðinn tæknilega hlutlaus. Með ákvörðun 26/2007 var fyrirtækið Míla útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið.

Það er mat PFS að umræddur markaður samanstandi nú ekki einungis af koparheimtaugum heldur einnig ljósleiðaraheimtaugum. Um mitt síðasta ár hafði Míla 87% markaðshlutdeild á þeim markaði. Það, ásamt fleiri atriðum, þykir að mati PFS renna stoðum undir að Míla sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. PFS hyggst því viðhalda útnefningu Mílu sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. PFS hyggst þó, að svo stöddu, ekki leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á Mílu að því er varðar ljósleiðaraheimtaugar, að vissum skilyrðum uppfylltum.

Markaður 5, heildsölumarkaður fyrir breiðbandsaðgang
Þessi markaður var síðast greindur með ákvörðun PFS nr. 8/2008 (þá markaður 12 skv eldri tilmælum ESA). Þar var Síminn útnefndur sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á þeim markaði og viðeigandi kvaðir voru lagðar á félagið.

Um mitt síðasta ár var Síminn enn með mestu markaðshlutdeildina á þessum markaði, eða 57%, og hefur hún lítið sem ekkert lækkað á undanförnum árum. Það, ásamt fleiri atriðum, þykir renna stoðum undir að Síminn sé ennþá með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. PFS hyggst því viðhalda útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk á markaði 5 og leggja viðeigandi kvaðir á félagið, m.a. kvöð um aðgang, jafnræði og eftirlit með gjaldskrá. PFS hyggst þó, að svo stöddu, ekki leggja kvöð um eftirlit með gjaldskrá á Símann að því er varðar veitingu breiðbandsaðgangs um ljósleiðaraheimtaugar, að vissum skilyrðum uppfylltum. 
  
Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum um þau drög að markaðsgreiningu sem hér eru lögð fram er til og með 18. apríl nk.   
 
Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal til þeirra liða sem um ræðir.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Kristinsson, netfang: ragnar(hjá)pfs.is.

PFS mun birta opinberlega allar athugasemdir sem berast, nema sérstaklega verði óskað trúnaðar og mun þá stofnunin leggja mat á slíka beiðni.

Sjá samráðsskjal:
Frumdrög að greiningu á mörkuðum fyrir heildsöluaðgang að föstum aðgangsnetum (Markaður 4) og breiðbandsaðgang í heildsölu (Markaður 5) (PDF, 2,785 MB)

 

 

 

Til baka