Hoppa yfir valmynd

Niðurstöður samráðs um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu

Tungumál EN
Heim

Niðurstöður samráðs um lausar FM tíðnir á höfuðborgarsvæðinu

23. nóvember 2011

Í samráði um tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) sem fram fór í sumar kom fram sú skoðun eins hagsmunaaðila að skortur kynni að vera á lausum tíðnum fyrir FM hljóðvarp á  höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að á FM tíðnisviðinu eru u.þ.b. 10 tíðnir lausar fyrir FM senda á þessu svæði, háð staðsetningum og sendistyrk senda. Eftirfarandi tíðnir eru lausar: 89.0 – 89.6 MHz, 91.9 MHz, 96.2 MHz, 101.0 – 101.5, 103.4 – 104.0 MHz, 106.0 – 106.7 MHz. Þá verður tíðnin 100,5 MHz einnig laus þann 1. desember 2011.

Stofnuninni hafði borist umsókn um eina af ofangreindum tíðnum, tíðnina 100,5 MHz, frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf.

PFS ákvað því að kanna áhuga hagsmunaaðila á úthlutun tíðna á höfuðborgarsvæðinu. Óskað var eftir því að áhugasamir sæktu um tíðnir til notkunar fyrir rekstur FM hljóðvarps til stofnunarinnar fyrir 21. nóvember 2011. Athygli var vakin á því að skilyrði fyrir úthlutun tíðni til reksturs hljóðvarps er að fengist hafi leyfi til hljóðmiðlunar frá fjölmiðlanefnd.

Þegar samráðið var auglýst tilkynnti stofnunin jafnframt að þegar  umsóknarfrestur (samráð) væri liðinn hygðist hún úthluta til þeirra umsækjenda sem sæktu um tíðnir og hefðu fengið hljóðmiðlunarleyfi. Kæmi til þess að fleiri en einn aðili óskuðu eftir sömu tíðninni myndi stofnunin úthluta viðkomandi tíðni með samkeppnisaðferð.

Niðurstaða PFS að loknu samráði
Póst- og fjarskiptastofnun hafa borist tvær umsóknir í tíðnina 100.5 MHz, annars vegar frá Lýðræðishreyfingunni vegna hljóðvarps Lýðvapsins og hins vegar frá fyrirtækinu Skeifan 7 Eignarhald ehf. vegna hljóðvarps Kanans.

Þá barst umsókn um tímabundna úthlutun frá Vodafone fyrir hljóðvarp Léttbylgjunnar. Sækir fyrirtækið um tíðni fyrir sendi staðsettan á þaki hússins Fannborg 1, Kópavogi.

PFS hafði áður lýst því yfir að kæmi til þess að fleiri en einn aðili óskuðu eftir sömu tíðninni myndi stofnunin úthluta viðkomandi tíðni með samkeppnisaðferð. Hefur stofnunin fengið leyfi innanríkisráðherra til að nota uppboðsaðferð vegna slíkrar samkeppnisúthlutunar.

Stofnunin hyggst úthluta Vodafone tímabundinni heimild fyrir 100W FM sendi á áðurnefndum stað til 1. febrúar 2012.

Varðandi tíðnina 100.5 MHz hefur PFS ákveðið að nýta áðurnefnt leyfi innanríkisráðherra og halda uppboð á tíðninni. Skilmálar uppboðsins verða birtir þann 30. nóvember 2011 á heimasíðu stofnunarinnar og uppboðið verður haldið fjórum vikum síðar eða föstudaginn 30. desember nk., sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 1047/2011 um skipulag og úthlutun tíðna.

 

Til baka