Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til samráðs um uppfærð viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang að farsímaneti félagsins og aðgang til endursölu

Tungumál EN
Heim

PFS efnir til samráðs um uppfærð viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang að farsímaneti félagsins og aðgang til endursölu

20. apríl 2011

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur borist tilkynning Símans um að gerðar hafi verið breytingar á viðmiðunartilboðum félagsins um sýndarnetsaðgang að farsímaneti Símans og aðgang til endursölu. PFS hafði áður samþykkt umrædd viðmiðunartilboð með ákvörðunum sínum nr. 19/2009 og nr. 20/2009, eftir að hafa mælt fyrir um tilteknar breytingar á þeim.

Helsta breytingin á viðmiðunartilboði um sýndarnetsaðgang sem Síminn leggur nú til felst í því að því að nú eru innankerfissímtöl skilgreind sem öll þau símtöl sem eiga upphaf og lúkningu í farsímakerfi Símans, þ.á.m. símtöl á milli Símans og sýndarnetsaðila. Í því viðmiðunartilboði sem PFS samþykkti á árinu 2009 var innankerfissímtal hins vegar skilgreint sem símtal sem ætti sér upphaf og endi í neti sýndarnetsaðila. Þá er það nýjung í báðum viðmiðunartilboðunum að nú er kveðið á um markaðsstyrk Símans til viðsemjenda.  

Með ákvörðun PFS nr. 4/2007 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15) var Síminn útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang til endursölu í almennum farsímanetum og heildsölumarkaði fyrir aðgang fyrir sýndarnet í almennum farsímanetum. Áður en PFS tekur afstöðu til þess hvort þær breytingar sem Síminn hefur gert á ofangreindum viðmiðunartilboðum uppfylla þær kvaðir sem koma fram í umræddri ákvörðun, sem og hvort þær samrýmast ákvæðum fjarskiptalaga að öðru leyti, óskar stofnunin eftir afstöðu hagsmunaaðila til viðmiðunartilboðsins.

Frestur til að senda inn umsagnir og athugasemdir er gefinn til mánudagsins 16. maí n.k.

Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið oskarh(hjá)pfs.is en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar.

Samráðsskjöl:

Bréf Símans til PFS, dags. 1. apríl 2011 um breytingar á viðmiðunartilboðum um sýndarnet og endursölu (PDF)

Uppfært viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang, útgáfa 1.3 – 01.01.2010 (PDF)

Uppfært viðmiðunartilboð Símans um endursölu, útgáfa 1.2 – 01.01.2010 (PDF)

 

 

 

Til baka