Hoppa yfir valmynd

PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu

Tungumál EN
Heim

PFS kallar eftir samráði vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á skilmálum um póstþjónustu

29. júní 2010

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) efnir til samráðs við hagsmunaaðila vegna breytinga sem Íslandspóstur hefur boðað á skilmálum fyrirtækisins um póstþjónustu

Með bréfi, dags. 28. júní 2010 tilkynnti Íslandspóstur Póst- og fjarskiptastofnun að fyrirtækið hyggðist breyta vöruframboði fyrirtækisins frá því sem nú er. Breytingin er m.a. fólgin í því að boðið verður upp á tvo vöruflokka innan einkaréttar (0-50 gr.), sbr. 7. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, sbr. 11. gr. rekstarleyfis Íslandspósts, dags. 3. desember 2007, „Almennur póstur“ og „Magnpóstur“.

Með tilkynningu Íslandspósts fylgdu afrit af fyrirhuguðum skilmálum og verðskrá fyrir almennan póst og magnpóst, ásamt greinargerð um kostnaðargrundvöll breytinganna.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 skulu póstrekendur birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála sem um þjónustuna gilda. Nýja og breytta skilmála skal senda Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fimm virkum dögum fyrir gildistöku þeirra. Ákvæðið gerir hins vegar ekki ráð fyrir að PFS samþykki fyrirfram nýja eða breytta skilmála áður en þeir taka gildi, sbr. ákvörðun PFS nr. 1/2010. Stofnunin getur hins vegar hvenær sem er krafist breytinga á skilmálum ef þeir brjóta gegn lögum, reglugerðum eða ákvæðum rekstrarleyfis.

Þá er og kveðið á um í 6. mgr. 16. gr. laganna að rekstarleyfishafa sem falinn er einkaréttur ríkisins skuli gefa út sérstaka gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti. Gjaldskrána skal leggja fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til samþykkis eigi síðar en 15 virkum dögum fyrir gildistöku.

Óljóst er á þessari stundu hvaða áhrif boðaðar breytingar Íslandspósts munu hafa á markaðinn hér á landi, sérstaklega á það við um þá viðskiptavini Íslandspósts, sem njóta þeirra kjara sem kveðið er á um í 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu, sbr. núgildandi skilmála Íslandspósts, Magnafslættir – stórnotendur.

Vegna þessa hefur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að kalla eftir sjónarmiðum hagsmunaðila varðandi þær breytingar sem boðaðar hafa verið af hálfu Íslandspósts. Helstu breytingar eru t.d. að fært er inn í skilmála ákvæði um tímalengd útburðar varðandi þann póst sem fellur undir fyrirtækjapóst, skilyrði um frágang á honum og kveðið er á um ný afsláttarskilyrði fyrir slíkan póst.

Athugasemdir hagsmunaaðila skulu berast stofnuninni fyrir 20. júlí n.k.

Til að auðvelda vinnu PFS við yfirferð athugasemda skal vísa til viðeigandi skilmála með númeri og/eða til þess orðalags skilmála sem verið er að gera athugasemdir við í hvert sinn.

Póst- og fjarskiptastofnun mun í framhaldinu fara yfir þær athugasemdir sem fram kunna að koma og taka formlega ákvörðun um efnisatriði þeirra skilmála sem nú hafa verið birtir af hálfu Íslandspósts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og 9. gr. laga nr. 69/2003 um Póst- og fjarskiptastofnun.

Rétt er að geta þess að samkomulag hefur náðst við Íslandspóst um að boðaðar breytingar muni ekki taka gildi fyrr en að lokinni formlegri málsmeðferð stofnunarinnar.

 

 

 

 

Til baka