Hoppa yfir valmynd

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans hf. um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með fyrirmælum um breytingar

Tungumál EN
Heim

PFS samþykkir viðmiðunartilboð Símans hf. um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með fyrirmælum um breytingar

4. desember 2009

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvarðanir sínar nr. 19/2009 og 20/2009, frá 26. nóvember 2009, um viðmiðunartilboð Símans um endursölu- og sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, (markaður 15 í eldri tilmælum ESA).

Málsatvik eru þau að með ákvörðun PFS nr. 4/2007, um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (Markaður 15), lagði stofnunin m.a. þá skyldu á Símann að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að GSM farsímaneti fyrirtækisins og þjónustu á heildsölustigi, þar á meðal endursölu- og sýndarnetsaðgang.  Með ákvörðun þessari og með heimild í 29. gr. fjarskiptalaga var lögð kvöð á Símann um gagnsæi og að útbúa og birta viðmiðunartilboð fyrir innanlands reiki, endursölu og sýndarnet og birta upplýsingar um einkenni netsins, skilmála og skilyrði fyrir afhendingu og notkun, verðskrá og bókhaldsupplýsingar fyrir GSM farsímasvið sitt.

Birti Síminn viðmiðunartilboð um endursöluaðgang og sýndarnetsaðgang að farsímaneti sínu fyrst þann 28. apríl 2008 og voru endurskoðuð tilboð birt þann 1. júní 2008.  Stuttu síðar var helstu fjarskiptafyrirtækjum tilkynnt um viðmiðunartilboð Símans og óskað eftir afstöðu þeirra til tilboðanna.  Þá var frétt þessa efnis jafnframt birt á heimasíðu stofnunarinnar þann 13. júní 2008 og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að senda inn umsagnir eða athugasemdir vegna viðmiðunartilboðanna.  Í kjölfar breytinga á viðmiðunartilboðum Símans birti Síminn uppfærð viðmiðunartilboð 1. janúar 2009 og þótti PFS því rétt að efna til samráðs hagsmunaaðila að nýju.

Drög að ákvörðunum PFS um breytingar á skilmálum viðmiðunartilboða Símans voru kynnt Símanum þann 26. júní 2009 og Símanum þá veitt færi á að koma að athugasemdum við fyrirhugaðar ákvarðanir PFS. Upphaflegur svarfrestur var framlengdur til 16. september 2009 að beiðni Símans.

Með ákvörðun nr. 19/2009 samþykkti PFS viðmiðunartilboð Símans um endursöluaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Síminn skal uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar og birta á aðgengilegan hátt á vefsíðu fyrirtækisins eigi síðar en 1. janúar 2010.

Með ákvörðun nr. 20/2009 samþykkti PFS viðmiðunartilboð Símans um sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins, með þeim breytingum sem mælt er fyrir um í ákvörðuninni. Síminn skal uppfæra viðmiðunartilboðið í samræmi við fyrirmæli PFS samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar og birta á aðgengilegan hátt á vefsíðu fyrirtækisins eigi síðar en 1. janúar 2010.

Sjá ákvarðanirnar á PDF formi:

Taka skal fram að ákvarðanir PFS eru birtar án tiltekinna upplýsinga er varða verð fyrir aðganginn (kafli 6.1.2 í ákvörðun PFS) þar sem Síminn óskaði eftir undanþágu frá birtingu þeirra með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 29. gr. fjarskiptalaga. PFS hefur ekki tekið afstöðu til beiðnar Símans um trúnað.

Sjá frétt PFS um seinna samráð á heimasíðu PFS þann 20. janúar 2009

Sjá einnig frétt um fyrra samráð á heimasíðu PFS þann 13. júní 2008

 

Til baka