Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun PFS: Beiðni Hringiðunnar um aðgang að IP neti Símans á Öxl á Snæfellsnesi hafnað

Tungumál EN
Heim

Ákvörðun PFS: Beiðni Hringiðunnar um aðgang að IP neti Símans á Öxl á Snæfellsnesi hafnað

10. mars 2009

Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun í máli Hringiðunnar ehf. gegn Símanum hf., þar sem Hringiðan krafðist þess að fá aðgang að IP neti Símans á Öxl á Snæfellsnesi.

Nánar tiltekið krafðist Hringiðan þess að gagnaflutningur félagsins frá Öxl til Reykjavíkur færi fram um IP kerfi Símans, með flutningsgetu allt að 50 Mb/s, fyrir hámark 50.000 kr. á mánuði. PFS féllst á það með Símanum að umrædd beiðni fæli ekki í sér, eins og hér háttaði til, eðlilega og sanngjarna beiðni um aðgang. PFS hafnaði því umræddri kröfu Hringiðunnar.

Hringiðan byggði kröfur sínar m.a. á því að umrædd aðgangskvöð hvíldi á Símanum varðandi IP net félagsins samkvæmt ákvörðun PFS nr. 20/2007, þar sem Síminn var útnefnt sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á leigulínumarkaði fyrir stofnlínur (markaður 14). Ágreiningslaust var í málinu að IP net Símans væri ekki í boði á umræddum stað og að rekstur á slíku kerfi myndi ekki bera sig þar. Síminn bauð Hringiðunni hins vegar IP samband frá Ólafsvík til Reykjavíkur.

Úrlausnarefni ákvörðunarinnar snerist því um það hvort beiðni um að Símanum bæri að veita aðgang að IP neti sínu á stað þar sem slíkur aðgangur væri ekki fyrir hendi teldist eðlileg og sanngjörn krafa um aðgang að umræddu fjarskiptaneti.

PFS komst að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun sem Hringiðan vísaði til legði ekki þá skyldu á Símann að leggja út í umfangsmikinn kostnað við útbreiðslu IP netsins, sem ekki væri í samræmi við uppbyggingaráætlanir félagsins, til þess að gera öðrum fjarskiptafyrirtækjum kleift að tengjast umræddu neti eða fá aðgang að því á stöðum þar sem það væri ekki þegar til staðar.

PFS komst einnig að þeirri niðurstöðu að umrædd aðgangskvöð gæti þó undir vissum kringumstæðum falið í sér að fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk þyrfti á eigin kostnað að leggja út í fjárfestingar sem telja yrði eðlilegar og sanngjarnar til að gera aðgang mögulegan, t.d. varðandi samhýsingu/samnýtingu og uppfærslu á kerfi sem þegar væri til staðar til að auka afkastagetu þess. Umrædd krafa Hringiðunnar rúmaðist að mati PFS ekki innan þeirra viðmiða. 

Ákvörðun PFS nr. 3/2009 - Beiðni Hringiðunnar um aðgang að IP neti Símans á Öxl.

 

 

Til baka