Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til samráðs um viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta

Tungumál EN
Heim

PFS efnir til samráðs um viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta

9. mars 2009

Póst- og fjarskiptastofnun barst þann 30. janúar sl. tilkynning frá Símanum hf. um nýtt viðmiðunartilboð um samtengingu talsímaneta, með gildistöku frá 1. maí nk. Sjá um samtengingar á heimasíðu Símans.

Birting viðmiðunartilboðs um samtengingu talsímaneta er hluti af þeim kvöðum sem lagðar voru á fyrirtækið með ákvörðun PFS nr. 29/2008, dags. 4. desember 2008, um útnefningu fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir upphaf, lúkningu og flutning símtala í föstum almennum talsímanetum (markaðir 8-10).

Með ákvörðuninni var m.a. lögð kvöð um gagnsæi á Símann með heimild í 29. gr. fjarskiptalaga og fyrirtækinu gert að útbúa viðmiðunartilboð og birta það opinberlega innan þriggja mánaða frá birtingu ákvörðunar.

Viðmiðunartilboðinu skal vera skipt í sjálfstæðar einingar með tilheyrandi skilmálum og skilyrðum, miðað við þarfir markaðarins þannig að gagnaðili neyðist ekki til að samþykkja kaup á þjónustu eða öðrum atriðum sem ekki er þörf fyrir. Í ákvörðuninni eru einnig talin upp þau atriði sem viðmiðunartilboðið skal að lágmarki innihalda.

Ef viðmiðunartilboð Símans er ekki talið fullnægjandi fyrir markaðinn getur PFS mælt fyrir um breytingar á því í samræmi við 2. mgr. 29. gr. fjarskiptalaga.

Með bréfi, dags. 3. febrúar sl. óskaði stofnunin eftir að Síminn gerði grein fyrir þeim breytingum sem gerðar eru á viðmiðunartilboðinu frá útgáfu 3.4.A sem tók gildi þann 1. ágúst 2007, í framhaldi af ákvörðun PFS nr. 13/2007. (Sjá einnig viðauka við ákv. 13/2007)

Skýringar Símans bárust stofnuninni með bréfi, dags. 25. febrúar sl.

Þar sem viðmiðunartilboðið hefur tekið breytingum frá því að það var síðast yfirfarið af hálfu stofnunarinnar og viðkomandi markaður hefur einnig verið greindur, sbr. fyrrnefnda ákvörðun PFS nr. 29/2008, telur stofnunin rétt að gefa hagsmunaðilum færi á að koma athugasemdum sínum að, áður en stofnunin tekur endanlega afstöðu til þess hvort framangreint viðmiðunartilboð uppfylli þær kvaðir sem lagðar hafa verið á fyrirtækið.

Frestur til að koma að athugasemdum er gefinn til 30 mars nk.

Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið fridrik(hjá)pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái frumrit til skráningar.

 

 

Til baka