Hoppa yfir valmynd

Ný skýrsla um alþjóðlegt reiki í Evrópu - Verð á símtölum milli landa fer lækkandi

Tungumál EN
Heim

Ný skýrsla um alþjóðlegt reiki í Evrópu - Verð á símtölum milli landa fer lækkandi

2. febrúar 2009

European Regulatory Group (ERG), sem er samstarfsvettvangur eftirlitsstofnana  í Evrópu á fjarskiptasviði, hefur sent frá sér nýja skýrslu um alþjóðlegt reiki milli landa í Evrópu fyrir tímabilið 1. apríl - 30. september 2008. Í skýrslunni eru gröf sem sýna gróflega samanburð milli landanna varðandi verð símtala í farsíma, SMS og gagnaflutnings, bæði í smásölu og heildsölu.

Þar kemur fram að verð fyrir símtöl milli Evrópulanda hafa farið lækkandi en verðlagning á SMS og gagnaflutningi er mun hærra og þar er Ísland með þeim löndum sem hafa hæst verð.

Innan Evrópuríkja hefur markvisst verið unnið að ráðstöfunum til að lækka verð sem neytendur þurfa að greiða fyrir farsímaþjónustu milli landa á svæðinu.

Um mitt ár 2007 tóku gildi reglur innan ríkja Evrópusambandsins þar sem þak var sett á verð á símtölum í alþjóðlegu reiki.  Reglurnar gilda til 30. júní 2010 og voru innleiddar formlega hér á landi í október sl. með reglugerð nr. 1046/2008,  en íslensk fjarskiptafyrirtæki fóru þó að taka tillit til þeirra í verðálagningu sinni í byrjun árs 2008.

Nú liggur fyrir Evrópuþinginu tillaga um reglur sem setja einnig þak á verð fyrir SMS og gagnaflutningsþjónustu.  Í tillögunum er gert ráð fyrir að áðurnefndar reglur um þak á verð símtala verði framlengdar til 2013.  Greidd verða atkvæði um þessa tillögu á þinginu í vor og þess er vænst að reglurnar taki gildi innan ESB í júlí nk.  Væntanlega verða reglurnar síðan innleiddar hér á landi í framhaldi af því.

Skýrsla ERG um alþjóðlegt reiki fyrir apríl - september 2008 (PDF) (Birt 12. janúar 2009)

Á vefsíðu Evrópusambandsins um alþjóðlegt reiki má nálgast ýmsar upplýsingar um stöðu mála varðandi alþjóðlegt reiki í Evrópu.

 

 

Til baka