Hoppa yfir valmynd

PFS efnir til aukasamráðs um viðmiðunartilboð Símans um aðgang til endursölu og sýndarnetsaðgang að farsímaneti

Tungumál EN
Heim

PFS efnir til aukasamráðs um viðmiðunartilboð Símans um aðgang til endursölu og sýndarnetsaðgang að farsímaneti

20. janúar 2009

Póst- og fjarskiptastofnun hefur borist tilkynning Símans hf. þess efnis að gerðar hafi verið breytingar á viðmiðunartilboðum fyrirtækisins um endursöluaðgang og sýndarnetsaðgang að farsímaneti Símans.

Hefur Síminn nú birt uppfærð viðmiðunartilboð um endursöluaðgang og sýndarnetsaðgang að farsímaneti fyrirtækisins á vef sínum: www.siminn.is/fyrirtaeki/samtengingar

Viðmiðunartilboð þessi eru hluti af þeim kvöðum sem lagðar voru á fyrirtækið með ákvörðun PFS nr. 4/2007þann 5. febrúar 2007, um útnefningu Símans með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á markaði fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum farsímanetum (markaður 15). 

Ákvörðun þessi innihélt einnig nánar tilteknar kvaðir á Símann í samræmi við 27. gr. fjarskiptalaga. Ein af þeim kvöðum sem lagðar voru á Símann var að fyrirtækið skyldi verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang að farsímaneti sínu til endursölu og fyrir sýndarnet, sbr. 28. gr. fjarskiptalaga (b og f-lið 2. mgr.). Um þennan aðgang gildir einnig kvöð um jafnræði, sbr. 30. gr. fjarskiptalaga, kvöð um gagnsæi, sbr. 29. gr. fjarskiptalaga, kvöð um bókhaldslegan aðskilnað, sbr. 31. gr. fjarskiptalaga og kvöð um eftirlit með gjaldskrá, sbr. 32. gr. fjarskiptalaga.

Í ákvörðuninni er jafnframt skýrt kveðið á um að PFS beri að meta viðmiðunartilboð Símans og samþykkja ef tilboð eru í samræmi við framangreindar kvaðir og þjóna þeim markmiðum sem að var stefnt þ.e. að styrkja og auka samkeppni á markaði fyrir farsímaþjónustu.

Nýtt samráð
Þar sem viðmiðunartilboð Símans hafa tekið breytingum eftir samningaviðræður við IP-fjarskipti ehf. vill PFS efna til samráðs að nýju. Er það gert til að gefa hagsmunaaðilum færi á að koma að athugasemdum sínum áður en stofnunin tekur endanlega afstöðu til þess hvort framangreind viðmiðunartilboð uppfylla þær kvaðir sem getið er um hér að ofan, sem og hvort þau samrýmast ákvæðum fjarskiptalaga að öðru leyti.

Frestur til að koma að athugasemdum er gefinn til 3. febrúar n.k.

Óskað er eftir að umsagnir, athugasemdir og/ eða ábendingar verði sendar á rafrænu formi á netfangið ingahelga (hjá) pfs.is, en jafnframt er óskað eftir að stofnunin fái send frumrit til skráningar.

Sjá einnig frétt um fyrra samráð á heimasíðu PFS þann 13. júní 2008

 

 

Til baka