Hoppa yfir valmynd

Álit PFS varðandi hljóðritun símtala fjármálafyrirtækja

Tungumál EN
Heim

Álit PFS varðandi hljóðritun símtala fjármálafyrirtækja

28. október 2008

Í tengslum við tilkynningu ónefnds fjármálafyrirtækis til Persónuverndar, þess efnis að fyrirtækið hefði í hyggju að hljóðrita öll símtöl sem það á við viðskiptavini sína án þess að tilkynna þeim sérstaklega um hljóðritunina í upphafi símtals, sá Póst- og fjarskipastofnun (PFS) ástæðu til að gera fyrirtækinu grein fyrir áliti sínu á því hvernig haga skuli hljóðritunum símtala þannig að þær geti talist í fullu samræmi við ákvæði 48. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.

Í niðurstöðukafla álitsins kemur fram að það sé mat PFS að hljóðritanir fjármálafyrirtækja falla undir undanþáguákvæði 2. mgr. 48. gr., en þó aðeins þegar um er að ræða viðmælendur sem ótvírætt megi ætla að sé kunnugt um hljóðritunina. Er þar t.d. um að ræða þá viðmælendur sem hafa áður undirritað samning eða skilmála fyrirtækisins, þar sem fram kemur að símtöl eru hljóðrituð, aðila fjármálafyrirtækja og aðra fagfjárfesta. Að mati PFS má ótvírætt ætla að slíkir aðilar séu almennt upplýstir um að símtöl þeirra við fjármálafyrirtæki séu hljóðrituð, enda getur slíkt talist til viðskiptavenja á umræddum markaði. Til að tryggja lögmæti hljóðritananna ber fjármálafyrirtækjum þó að gæta þess að kynna umfang þeirra í ákvæðum viðskiptasamninga sinna, í almennum markaðs- eða viðskiptaskilmálum og heimasíðu sinni.

Þegar hins vegar er um að ræða viðmælendur fjármálafyrirtækja sem falla ekki undir framangreint, til að mynda hinn almenna neytanda sem er ekki eins vel upplýstur um venjur og starfshætti á fjármálamarkaði og fyrrnefndir aðilar, ber fjármálafyrirtækjum, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 48. gr., að tilkynna viðkomandi að símtalið sé hljóðritað. Í því sambandi dugar almenn tilkynning á heimasíðu fyrirtækis ekki til að fullnægja áskilnaði 2. mgr. 48. gr. um að viðmælanda sé ótvírætt kunnugt um hljóðritunina. Gera verður þá kröfu til fjármálafyrirtækja að starfsmenn þeirra séu upplýstir um framangreinda reglu í lögunum og séu hæfir til að meta í hvaða tilvikum þörf er á að tilkynna viðmælendum sérstaklega um að símtöl séu hljóðrituð.

Að mati Póst- og Fjarskiptastofnunar er með framangreindum hætti komið til móts við rétt allra hagsmunaaðila er máli skipta, þ.e. fjármálafyrirtækja, hins almenna neytanda sem þekkir ekki til venja og aðstæðna á fjármálamarkaði og þeirra aðila sem hafa reynslu og þekkingu á fjármálamarkaði eins og t.d. fagfjárfesta. Þannig er jafnframt tryggt að hljóðritanir fjármálafyrirtækja brjóti ekki gegn stjórnarskrárvörðum réttindum manna um friðhelgi einkalífs.

Álit PFS í heild (PDF)

Til baka