Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um heildsölumarkað fyrir breiðbandsaðgang

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um heildsölumarkað fyrir breiðbandsaðgang

21. október 2008

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun PFS nr. 8/2008 frá 18. apríl sl. þar sem Síminn hf. er útnefndur með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang (markaði 12).

Samkvæmt skilgreiningu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) nær viðkomandi markaður yfir „bitastraumsaðgang“ sem unnt er að nota til breiðbandssendinga á gögnum í báðar áttir, sem og aðgang með annarri tækni sem er seldur í heildsölu ef hann er sambærilegur við bitastraumsaðgang.

Í fyrrnefndri ákvörðun PFS eru lagðar kvaðir á Símann um að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um opinn aðgang að sérstakri netaðstöðu á koparheimtaugum á heildsölustigi. Netaðstaðan sem hér um ræðir er aðgangur að bitastraumi sem fer um efri tíðnihlutann á koparheimtaugum í þeim tilgangi að gera öðrum fjarskiptafyrirtækjum kleift að veita notendum sínum aðgang að ýmis konar bandbreiðri þjónustu. Jafnframt leggur stofnunin kvaðir á Símann hf. um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá.
Þar til kostnaðartengd heildsölugjaldskrá liggur fyrir og hefur verið samþykkt af PFS, skal Síminn bjóða skráðum fjarskiptafyrirtækjum að lágmarki 35% afslátt af smásöluverðum ADSL tenginga sem í gildi voru við töku ákvörðunar PFS í apríl s.l. Miðað er við að fjarskiptafyrirtæki endurselji að lágmarki 75 tengingar til að njóta ofangreinds verðs.

PFS telur að með úrskurði þessum sé veigamiklum hindrunum rutt úr vegi þess að keppninautum Símans verði gert kleift að byggja upp og þróa fjarskiptaþjónustu í samkeppni við Símann með því að fá aðgang að innviðum fjarskiptakerfa félagsins á heildsöluverði. Þetta er sérlega mikilvægt varðandi aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að bitastraumskerfi Símans á kostnaðartengdu verði en fram til þessa hefur sú þjónusta ekki staðið öðrum fjarskiptafyrirtækjum til boða á heildsöluverði. Aðgangur að bitastraumskerfinu á kostnaðartengdu verði er grundvallaratriði varðandi eflingu samkeppni á hinum ýmsu undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins, t.d. mörkuðum fyrir internetþjónustu, gagnaflutning, sjónvarpsþjónustu (IPTV) og talsímaþjónustu (VoIP). 

Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningum er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamörkuðum og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppni, sé hún ekki nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á fjarskiptamörkuðum eflast, neytendum til hagsbóta.

Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála nr. 5/2008 - 17. október 2008

 

 

 

Til baka