Hoppa yfir valmynd

Nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning á sviði fjarskipta

Tungumál EN
Heim

Nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning á sviði fjarskipta

16. október 2008

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur gefið út nýjar reglur um númera- og þjónustuflutning á sviði fjarskipta, nr. 949/2008.  Reglurnar voru unnar í samráði við hagsmunaaðila og tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 15. október sl.
Með reglunum er skýrt kveðið á um að réttur neytenda til númeraflutnings samkvæmt 52. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er skilyrðislaus.

Markmið reglnanna er margþætt. Þar má nefna m.a.:

  • Að kveða á um skilvirkan númera- og þjónustuflutning
  • Auka neytendavernd notenda í talsíma-, farsíma- og internetþjónustu
  • Koma í veg fyrir óþarfa tafir
  • Stuðla að góðri samvinnu um flutning þjónustu milli starfandi fjarskiptafyrirtækja á markaði.

Helstu nýjungar sem felast í reglunum eru:

  • Afgreiðslutími flutningsbeiðna styttur þannig að nú skal flutningur í talsímaneti taka að hámarki 5 virka daga og í farsímaneti eins fljótt og auðið er, þó að hámarki 3 virka daga.
  • Nýtt ákvæði kveður á um að fjarskiptafyrirtæki skulu gera allar ráðstafanir til að númera- og þjónustuflutningur gangi greiðlega fyrir sig og án allra óþarfa tafa. Í því felst m.a. að öll samskipti fráfarandi fjarskiptafyrirtækis við rétthafa númers, sem óskar flutnings til annars fjarskiptafyrirtækis, skulu ekki vera viðhöfð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir flutning.
  • Ef koma upp mistök við númera- og þjónustuflutning, eða flutningur hefur verið framkvæmdur án samþykkis rétthafa númers/tengingar er hlutaðeigandi fjarskiptafyrirtækjum skylt að leiðrétta slík mistök án tafar.
  • Fjarskiptafyrirtækjum er aðeins heimilt að synja notendum um númera- og þjónustuflutning á þeim grundvelli að bindandi samningssamband er í gildi.

Auk samráðs við hagsmunaaðila taldi PFS jafnframt mikilvægt að leita eftir áliti talsmanns neytenda (TN) á regludrögunum. Álit TN barst PFS þann 5. september sl. og er aðgengilegt á heimasíðu TN.

Endurtekið samráð
Vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á regludrögunum eftir fyrra samráð og í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, ákvað PFS að hafa samráð við hagsmunaaðila að nýju.
Þær athugasemdir sem þyngst vógu í þessu seinna samráði vörðuðu það álitaefni hvort fjarskiptafyrirtækjum ætti að vera heimilt að synja neytendum um númera- og þjónustuflutning á þeim forsendum að hlutaðeigandi notandi væri í vanskilum við viðkomandi fjarskiptafyrirtæki.

Í þessu sambandi leitaði PFS til helstu systurstofnana í nágrannalöndum Íslands til að kanna hvernig þessum málum væri háttað þar. Um er að ræða systurstofnanir PFS í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Í öllum þessum ríkjunum er málum þannig háttað að óheimilt er að synja neytendum um númeraflutning á þessum grundvelli.

Að teknu tilliti til athugasemda hagsmunaaðila, álits talsmanns neytenda og réttarframkvæmdar í áðurnefndum löndum er það mat PFS að réttur neytenda til númeraflutnings samkvæmt 52. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 er skilyrðislaus. Ágreiningsefni er varða vanskil notenda fjarskiptaþjónustu fellur undir kröfurétt og ber að leysa úr á vettvangi einkamálaréttar. Fjarskiptafyrirtækjum er því aðeins heimilt að synja notendum sínum um númera- og þjónustuflutning á þeim grundvelli að bindandi samningssamband er í gildi, sbr. 8. gr. reglnanna.

Til baka