Míla útnefnd með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang að koparheimtaugum
27. desember 2007Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur nú lokið greiningu á markaði 11, heildsölumarkaði fyrir aðgang að koparheimtaugum. Á grundvelli niðurstöðu úr markaðsgreiningunni hefur PFS ákveðið að útnefna Mílu ehf. með umtalsverðan markaðsstyrk á markaðinum.
PFS hefur ákveðið að leggja á Mílu skyldu til að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang að koparheimtaugum og þjónustu á heildsölustigi.
Jafnframt eru lagðar á kvaðir um jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá. Mílu er gert skylt að birta viðmiðunartilboð fyrir aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu. Míla skal gera kostnaðarlíkan til útreikninga á gjaldskrá og skal gjaldskráin vera sundurliðuð í grunnverð, aukagjald fyrir skiptan aðgang og gjöld fyrir tengda aðstöðu.
Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og Póst- og fjarskiptastofnunar með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk, eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna.
Sjá nánar:
Ákvörðun PFS nr. 26/2007 og viðaukar