Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd staðfestir niðurstöðu PFS um aðgang og upphaf símtala í farsímanetum

Tungumál EN
Heim

Úrskurðarnefnd staðfestir niðurstöðu PFS um aðgang og upphaf símtala í farsímanetum

4. júlí 2007

 Þann 3. júlí 2007 staðfesti úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála í úrskurði sínum nr. 2/2007 ákvörðun PFS nr. 4/2007 um markað 15, um upphaf og aðgang símtala í farsímanetum.

Í ákvörðun sinni komst PFS m.a. að þeirri niðurstöðu að Síminn hefur umtalsverðan markaðsstyrk fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum GSM og NMT farsímanetum. Í framhaldi af útnefningunni leggur PFS m.a. eftirfarandi kvaðir á Símann hvað varðar GSM farsímanet: kvöð um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá.

Varðandi kvöð um aðgang þá er Símanum gert skylt að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um innanlands reiki, samnýtingu og samhýsingu, aðgang til endursölu og um sýndarnetsaðgang.

Varðandi kvöð um eftirlit með gjaldskrá þá skal Síminn birta viðmiðunartilboð fyrir aðgang að GSM farsímaneti sínu og þjónustu, aðgangsverð fyrir endursölu, sýndarnet og innanlandsreiki. Verð fyrir aðgang til endursölu og fyrir sýndarnet skal reiknaður með smásölu mínus aðferðinni fyrst um sinn. Smásala mínus skal vera að lágmarki 35% miðað við hreinan sýndarnetsaðgang og að lágmarki 25% fyrir endursöluaðgang miðað við eðlilegan rekstrarkostnað og hæfilegan hagnað. Prósentan skal svo vera breytileg eftir því hversu mikill aðgangur að innviðum farsímanetsins er keyptur.

Með úrskurði þessum er það von PFS að veigamiklum hindrunum sé rutt úr vegi þess að keppinautum Símans verði gert kleift að byggja upp og þróa GSM farsímaþjónustu í samkeppni við Símann með þeim hætti að fá aðgang að innviðum farsímakerfa Símans til að bjóða eigin þjónustu að hluta til eða í heild.

Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast, neytendum til hagsbóta.

Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS, s. 510-1500

Sjá úrskurðinn í heild (pdf)

Sjá einnig hina kærðu ákvörðun PFS nr. 4/2007 fra 5. febrúar 2007

 

Til baka