Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Algengar spurningar og svör

Á að tilkynna um truflanir, t.d. í útvarpi og/eða sjónvarpi, til Fjarskiptastofu?

Já. Tilkynna skal til FST, ef rökstuddur grunur er um að óeðlilegar truflanir á fjarskiptum.

Fjarskiptastofa á að tryggja að fjarskipti séu truflanalaus og hefur það hlutverk að miða út og stöðva rekstur ólöglegra truflanavalda í ljósvakanum.

Ef vart verður truflana á sjónvarps- eða útvarpsmóttöku telur FST hins vegar eðlilegt að fyrst sé leitað til fagmanna, þ.e. þeirra sem bera ábyrgð á loftnetslögnum í húsinu. Ef þeir komast að þeirri niðurstöðu með mælingum að ólöglegar sendingar séu í loftinu, skulu þeir tilkynna um það til FST með því að fylla út rafrænt eyðublað hér á vefnum. Einnig er hægt að tilkynna um truflanir með tölvupósti (bjarni(hjá)pfs.is) eða í síma 822-1596.

 

Er í lagi að panta radíótæki, t.d. talstöð eða fjarstýrð leikföng á netinu?

Það getur verið í lagi, en rétt er að vera vel á varðbergi, til þess að komast hjá vandræðum, þegar varan kemur til landsins.

Aðeins má setja radíótæki, sem eru CE-merkt, á markað á Evrópska efnahagssvæðinu. Ef vara er keypt frá útlöndum á Netinu, er seljandinn að setja vöruna á markað hér á landi og gilda því sömu reglur og um vöru, sem seld er í verslunum hér á landi.

CE-merkingin felur í sér yfirlýsingu frá framleiðanda um að varan sé ætluð til notkunar í Evrópu.

Radíóbúnaður, t.d. talstöðvar og fjarstýrð leikföng, sem er leyfður og almennt notaður utan Evrópu en framleiðandinn hefur ekki ætlað beint til notkunar í Evrópu, er því ólöglegur og notkun hans óheimil hér á landi.

Sjá meira um CE merkingar og kaup á tækjum.

CE merkið


Hvað er alþjónusta í fjarskiptum?

Til alþjónustu teljast þeir þættir fjarskipta sem boðnir eru öllum neytendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.

Sjá nánar um alþjónustu í fjarskiptum

 

 

Hvernig er hagkvæmast að nota farsímann á ferðalögum erlendis?

Í gildi eru reglur Evrópusambandsins um verðþök á notkun farsíma milli landa innan EES svæðisins (Evrópusambandið, Noregur, Ísland og Lichtenstein).  Þessar reglur gilda ekki utan þessa svæðis.

Hér á vefnum eru góð ráð um farsímanotkun í útlöndum.

Á heimasíðum símafyrirtækjanna eiga einnig að vera upplýsingar um reikisamninga þeirra og gjaldskrár erlendra símafyrirtækja sem samið hefur verið við.

Rétt er að benda notendum á að ofan á uppgefna gjaldskrá erlenda símafyrirtækisins leggst jafnan þjónustugjald og 25,5% virðisaukaskattur.

 

Hvert beini ég kvörtun ef ég tel póst- eða fjarskiptafyrirtæki brjóta gegn skyldum sínum samkvæmt lögum?

Fjarskiptastofa tekur við kvörtunum frá neytendum telji þeir að fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi brjóti gegn þeim skyldum sínum sem kveðið er á um í lögum eða almennum heimildum og rekstrarleyfum.

Rafrænt kvörtunareyðublað

 

 

Óumbeðin fjarskipti og bannmerkingar í símaskrá. Hvaða reglur gilda?

Óumbeðin fjarskipti

Óheimilt er að nota óumbeðin fjarskipti í markaðslegum tilgangi nema viðtakandi hafi gefið fyrirfram samþykki sitt fyrir að taka á móti slíkum sendingum.

Þessa reglu er að finna í 46. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Tilgangur hennar er að takmarka það ónæði sem notendur fjarskiptaþjónustu geta orðið fyrir vegna beinnar markaðssetningar með hjálp fjarskiptatækni, óháð því hvort hún á sér göfugan tilgang eða helgast af hreinum viðskiptahagsmunum.

Hvað er bein markaðssetning?

Bein markaðssetning er hvers konar markaðsátak sem hefur í för með sér beina sókn að einstaklingi í því skyni að selja eða bjóða honum vöru eða þjónustu.
Söluaðili snýr sér beint að tilteknum aðila, einum eða fleiri, ýmist á grundvelli nafns viðkomandi, tölvupóstfangs, símanúmers eða annarra upplýsinga.

Kynning eða boð um vöru og/eða þjónustu þarf ekki að vera í hagnaðarskyni til að teljast bein markaðssetning.
Ef markmiðið er að fá viðkomandi aðila til að skuldbinda sig með einhverjum hætti, t.d. að kaupa áskrift, kaupa eitthvað til að styrkja félagsstarfsemi eða inna greiðslur af hendi í öðrum tilgangi er um beina markaðssetningu að ræða. Þetta á einnig við þó ekki sé um fjármuni að ræða, t.d. þegar verið er að biðja fólk um að setja nöfn sín á stuðningslista.

Hafi efni óumbeðinna fjarskipta ekki að geyma kynningu eða sölu á vörum eða þjónustu eða boð um slíkt og ekki má skilja efni þeirra þannig að ætlast sé til þess að móttakandinn bregðist við sendingunni eða símtalinu með tilteknum hætti, þá telst slíkt ekki vera bein markaðssetning.

Hvað felst í samþykki?

Samþykki hefur verið skilgreint með eftirfarandi hætti:

„Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fer fram, hvernig persónuvernd er tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.“

Ekki er heimilt að senda út tölvupóst til fólks til að óska samþykkis fyrir að senda viðkomandi tölvupóst sem lið í beinni markaðssetningu. Ekki er nóg að einstaklingur gefi í skyn að hann vilji fá slíkan tölvupóst, t.d. með athafnaleysi, svo sem því að taka ekki merkingu úr fyrirfram útfylltum reitum áður en form er sent. Skilgreining á samþykki kveður á um að það skuli innihalda yfirlýstan vilja hans. Má því segja að samþykki þurfi að fela í sér ákveðna athöfn af hálfu hlutaðeigandi svo það teljist vera ótvírætt.

Bannmerkingar í símaskrá og þjóðskrá

Virða verður bannmerkingu í símaskrá. Einstaklingar eiga ætíð rétt á að fá að vita hvaðan upplýsingar um þá koma sem liggja úthringingu til grundvallar.
Ef einstaklingur óskar eftir að vera bannmerktur í símaskrá þarf viðkomandi að hafa samband við það fjarskiptafyrirtæki sem hann er í viðskiptum hjá, eða þann aðila sem veitir símaskrárupplýsingar.

Einungis áskrifandi númers getur látið setja bannmerki við símanúmer sitt í símaskrá. Þar með er óleyfilegt að ónáða viðkomandi af aðilum sem stunda beina markaðssetningu. Tekur þetta jafnframt til annarra sem hafa afnot af sama númeri.

Hjá Þjóðskrá Íslands geta aðilar óskað eftir að vera undanþegnir frá því að vera á úrtakslistum úr þjóðskrá vegna markaðsstarfsemi. Þá er viðkomandi settur á svokallaða bannskrá skv. reglum nr. 36/2005 um bannskrár Þjóðskrár. Þegar einstaklingar eru skráðir á bannskrá hjá Þjóðskrá færist sú skráning ekki sjálfkrafa yfir á úrtakslista sem þegar eru í notkun hjá öðrum og veitt hefur verið heimild til að nota í markaðs-setningarskyni. Þess vegna er mikilvægt að þeir aðilar sem nota úthringilista til markaðssetningar uppfæri þá reglulega til að koma í veg fyrir að haft sé samband við aðila sem eru bannmerktir, hvort heldur sem er í símaskrá eða bannskrá.

Hver ber ábyrgð, fyrirtækið eða úthringiþjónustan?

Fyrirtæki fá oft úthringiþjónustu sér til aðstoðar vegna hvers konar úthringiverkefna. PFS hefur litið svo á að fyrirtækið sem kaupir úthringiþjónustuna beri ábyrgð á að úthringilistar sem notaðir eru séu réttir. Því er mikilvægt að uppfæra slíka lista reglulega, þó svo annar aðili sé fenginn til að sjá um sjálfar úthringingarnar.

Kvartanir til Fjarskiptastofu vegna óumbeðinna fjarskipta

Neytendur geta sent kvörtun vegna óumbeðinna fjarskipta til Fjarskiptastofu. Hér á vefnum er sérstakt kvörtunareyðublað sem fylla þarf út og senda inn.
Ef óskað er frekari upplýsinga er velkomið að hafa samband við okkur. Sjá upplýsingar um netfang, símanúmer og afgreiðslutíma hér neðst á vefsíðunni.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?