Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Kostnaðargreiningar og viðmiðunartilboð

Kostnaðargreiningar

Í framhaldi af markaðsgreiningu Fjarskiptastofu á skilgreindum mörkuðum á sviði fjarskipta eru lagðar ýmsar kvaðir á fyrirtæki sem útnefnd eru með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði. Ein af þeim kvöðum er eftirlit með verðlagningu. Viðkomandi fyrirtæki skal þá greina kostnað sem fellur til innan fyrirtækisins við rekstur þeirrar þjónustu sem fellur undir viðkomandi markað, aðgreina hann frá kostnaði við annan rekstur og verðleggja viðkomandi vörur í samræmi við þann sundurgreinda kostnað. Fjarskiptastofa yfirfer slíkar greiningar og gerir athugasemdir og/eða fer fram á breytingar á kostnaðargreiningunni. Þegar greining hefur verið samþykkt af PFS er hún lögð í samráð meðal hagsmunaaðila sem þá geta komið að athugasemdum og tillögum til breytinga sem stofnunin hefur til hliðsjónar við ákvarðanatöku að samráði loknu. Þegar Fjarskiptastofa tekur ákvörðun í kjölfar innanlandssamráðs eru drög að ákvörðun birt á vef stofnunarinnar og send til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). ESA skal þá innan 30 daga samþykkja ákvörðunina eða gera athugasemdir við hana.

Viðmiðunartilboð

Önnur kvöð sem lögð er á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk er kvöð um gagnsæi. Fyrirtækið skal þá birta viðmiðunartilboð þar sem allar tæknilegar kröfur og skilmálar fyrir viðkomandi þjónustu eru birtar sem og verð allra þjónustuþátta. Allir kaupendur þjónustunnar skulu sitja við sama borð og njóta þessara kjara, hvort sem þeir eru tengdir aðilar eða ótengdir. Fyrirtækið gerir tillögu að viðmiðunartilboði sem Fjarskiptastofa fer yfir og leggur í samráð meðal hagsmunaaðila. Að loknu samráði tekur Fjarskiptastofa ákvörðun um viðmiðunartilboðið sem tekur þá gildi.

Lög um fjarskipti, 32. gr. eftirlit með gjaldskrá

Bæði kostnaðargreiningar og viðmiðunartilboð byggja á 32. gr.  laga um fjarskipti nr. 81/2003 sem fjallar um eftirlit með gjaldskrá. Greinin hljóðar svo:

 32. gr. Eftirlit með gjaldskrá.
Þegar markaðsgreining gefur til kynna að skortur á virkri samkeppni hafi í för með sér að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk krefjist of hárra gjalda eða að óeðlilega lítill munur sé á heildsölu- og smásöluverði getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um kostnaðarviðmiðun gjaldskrár og kvaðir um kostnaðarbókhald á ákveðnum tegundum samtengingar eða aðgangs. Taka skal tillit til fjárfestinga fjarskiptafyrirtækisins og hæfilegrar arðsemi af bundnu fjármagni með hliðsjón af áhættu við fjárfestinguna.
Þegar lögð er kvöð á fjarskiptafyrirtæki um að gjaldskrá miðist við kostnað ásamt hæfilegum hagnaði hvílir sönnunarbyrðin á fyrirtækinu.
Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að fjarskiptafyrirtæki geri kostnaðarlíkan til útreiknings á verði.
Póst- og fjarskiptastofnun getur við útreikninga á kostnaði tekið mið af rekstri sambærilegrar þjónustu sem telst hagkvæmlega rekin, tekið mið af gjaldskrám á sambærilegum samkeppnismörkuðum og notað kostnaðargreiningaraðferðir sem eru óháðar aðferðum fjarskiptafyrirtækisins.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útfærslu bókhaldslegs aðskilnaðar í rekstri fjarskiptafyrirtækja skv. 31. gr., þ.m.t. skiptingu eftir netum og þjónustu, og um nánara fyrirkomulag kostnaðargreiningar samkvæmt þessari grein, m.a. um aðferðir við eignamat, afskriftir, ávöxtunarkröfu og gerð kostnaðarlíkana.  

 

 

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?